149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:45]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið hið síðara. Er það ekki kjarni málsins? Við sömdum þetta atriði ekki inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og getum þar af leiðandi ekki beitt því. Þetta er kannski pínulítið eins og umræðan um þriðja orkupakkann, að menn mundu vilja standa hér í þessum sal og endursemja, jafnvel sömu aðilar og gerðu samningana á sínum tíma, um það með hvaða hætti þetta sé tekið inn. Ég er bara að tala um að við virðum okkar alþjóðlegu skuldbindingar með nákvæmlega sama hætti og við ætlumst til að viðskiptaþjóðir okkar virði skuldbindingar sínar gagnvart okkur. Um leið og við förum að beita tæknilegum viðskiptahindrunum í alþjóðaviðskiptum með ólögmætum hætti erum við að grafa undan þeim viðskiptasamningum sem við höfum gert. Þeirra mikilvægastur er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, enda miklu meiri og mikilvægari en hefðbundinn viðskiptasamningur sem slíkur. Það er auðvitað þannig. Samningar eru einskis virði ef samningsaðilar vilja ekki virða þá. (Forseti hringir.) Tilraunir okkar til að sniðganga þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist grafa undan samningum sem við höfum gert.