151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

eftirlit með peningaþvætti.

[14:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Því er til að svara að margt hefur verið gert sem lýtur að þessum málum almennt. Í fyrsta lagi vil ég nefna að úrskurðurinn sem hv. þingmaður vísar í, gagnvart norska bankanum DNB, varðar slælega framkvæmd laga um peningaþvætti. Íslensk stjórnvöld hafa gripið til margháttaðra aðgerða til að tryggja betur varnir gegn peningaþvætti. Þau mál höfðu allt of lengi verið látin reka á reiðanum og þó að gripið hafi verið til aðgerða var ekki nógu hratt brugðist við þannig að Ísland lenti um tíma á hinum gráa lista FATF, sem við ræddum hér í þessum sal. Við vorum hins vegar mjög fljót af honum aftur vegna þess að við höfum verið að grípa til ráðstafana til að hafa betra eftirlit með peningaþvætti sem þetta mál, sem hv. þingmaður nefnir, snerist um, en líka til að tryggja betur gagnsæi í íslensku atvinnulífi, m.a. með skráningu raunverulegra eigenda. Það var líka þjóðþrifamál sem of langan tíma hafði tekið að breyta til batnaðar. Það hefur því ýmislegt verið gert á þessu sviði.

Ég vil síðan segja, af því að hv. þingmaður spyr hér um Fjármálaeftirlitið, að Alþingi samþykkti lög um sameiningu Seðlabanka og Fjármálaeftirlits og það er mitt mat og mat margra annarra, þar á meðal seðlabankastjóra, að sú sameining hafi orðið til þess að styrkja þessar tvær stofnanir og gera þeim betur kleift að takast á við eftirlitshlutverk sitt. Raunar kom það líka fram, í þeirri vinnu sem unnin var við gerð þeirra laga, að það myndi styrkja betur hefðbundið fjármálaeftirlit, og líka annars konar eftirlitsverkefni eins og nefnd hafa verið í tengslum við Samherja, og er ég þá að vitna til gjaldeyriseftirlitsins, að hafa þarna sterka stofnun á þessu sviði. Ég tel því að ýmislegt hafi verið gert og ég tel að þessi sameining hafi verið til að styrkja hið mikilvæga eftirlitshlutverk sem um ræðir.