151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

skráning samskipta í Stjórnarráðinu.

[14:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í lögum um Stjórnarráð Íslands segir að færa skuli skrá um formleg samskipti og fundi sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og aðila utan þess og að forsætisráðherra setji reglur um skráninguna. Reglur um skráningu óformlegra samskipta sem settar voru 18. apríl 2016 eru, með leyfi forseta:

„Skrá skal í málaskrá ráðuneytis óformleg samskipti milli ráðuneyta sem og við aðila utan þess ef þar koma fram mikilvægar upplýsingar um málefni sem heyra undir ráðuneyti. Með óformlegum samskiptum er átt við munnleg samskipti, þar á meðal símtöl og fundi, þar sem lýst er afstöðu eða veittar upplýsingar sem teljast hafa þýðingu fyrir mál sem er til meðferðar í ráðuneyti eða teljast mikilvægar vegna málefna sem heyra undir ráðuneytið, enda komi afstaðan eða upplýsingarnar ekki fram í öðrum skráðum gögnum. Skrá skal hvenær samskipti fóru fram, milli hverra og efni upplýsinga sem um ræðir.“

Nú hefur hæstv. forsætisráðherra sagt að hún viti ekki hvaða ráðherrar eða stjórnmálamenn beittu stjórnvöld í Færeyjum þrýstingi. Því vil ég byrja á að spyrja hvort breytingar hafi orðið á því, hvort forsætisráðherra viti nú um hvaða íslensku ráðherra er að ræða. Er ráðherra búin að kynna sér það síðan yfirlýsing var gefin um annað um daginn?

Svo vil ég spyrja um skráningu formlegra eða óformlegra samskipta, sem eru reglur settar af forsætisráðherra. Á ábyrgð hvaða ráðherra væru þau samskipti sem fram fóru milli Færeyinga og Íslendinga? Veit ráðherra hvort til séu skráningar um þau samskipti sem Høgni Hoydal lýsir sem þrýstingi íslenskra stjórnmálamanna með orðunum að elta eigi peninga? Erum við þar að tala um sjávarútvegsráðherra, því að málefnið er um sjávarútvegsfyrirtæki? Erum við að ræða um fjármálaráðherra, því að það er eignarhald á fyrirtækjum sem þar er um að ræða? Eða er þetta utanríkisráðherra þar sem þetta er tvímælalaust utanríkismál?