151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi bara árétta það sem fram kemur í frumvarpinu um lögregluvald erlendra lögreglumanna. Þar segir í 6. gr.:

„Lögregla skal eiga samstarf við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir á sviði löggæslu. Við lögreglurannsóknir og framkvæmd annarra löggæsluverkefna er ríkislögreglustjóra, öðrum lögreglustjórum og héraðssaksóknara, að fengnu samþykki ríkislögreglustjóra, heimilt að taka á móti erlendum lögreglumönnum. Á meðan dvöl þeirra stendur starfa þeir undir stjórn og leiðsögn viðkomandi lögreglustjóra, eftir atvikum í samráði við hið erlenda lögregluyfirvald.“

Síðan segir:

„Ríkislögreglustjóri ákveður hvort erlendir lögreglumenn hér á landi skuli fara með lögregluvald.“

Það er fleira í þessu en auðvitað er tiltekið að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur um samstarf við lögregluyfirvöld erlendis og aðra þætti sem þessu valda. Þess vegna held ég að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af því að þarna sé verið að framselja vald frá okkur. Forræði þessara mála verður alltaf á forsendum íslenskra lögregluyfirvalda og þeir sem starfa hér á landi munu alltaf lúta íslenskum lögum.