Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurstöður barnaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[12:30]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýrsluna og líka fyrir að setja umræðu um hana í forgang hér á síðustu dögum þingsins. Það skiptir máli. Það skiptir máli að við hlustum, frú forseti. Fyrir 45 árum síðan stóð sá sem hér stendur fyrir utan Alþingishúsið og tók þátt í mótmælum sem tengdust verkfalli. Rétt átta ára gamall mætti ég hingað niður á Austurvöll og valdi mér mótmælaspjald sem á stóð: Hvað á gera við börnin? Já, þetta er ég hér á tröppum Alþingis, [Hlátur í þingsal.] en ég var mjög vinsælt myndefni í fjölmiðlum daginn eftir.

Fyrr í vetur var ég einn þeirra þingmanna sem varð þess heiðurs aðnjótandi að taka þátt í barnaþingi sem haldið var í Hörpu. Það var ótrúlegt að hlusta á börnin og heyra hvaða málefni brunnu á þeim. Þau voru beinskeytt og óhrædd við að segja hlutina eins og þeir eru og spyrja okkur þingmenn þessarar sömu spurningar: Hvað á að gera við börnin? Hvað á t.d. að gera við börnin til að tryggja fjölbreytileika? Þau minntu okkur þingmenn á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir fjölbreytileikanum, hvort sem slíkt tengdist uppruna, kynhneigð eða kyntjáningu. Þau minntu okkur á að sem börn þá fagna þau þessum fjölbreytileika á meðan við fullorðna fólkið hræðumst hann og fordæmum hann sum. En þau kvörtuðu líka yfir því að námsefni og námskrá væri úrelt og væri ekki í tengslum við þennan breytta og fjölbreytta heim sem þau lifa í.

Talandi um nám þá spurðu þau okkur líka: Hvað á að gera við börnin sem bíða eftir greiningu? Þau gera sér mun betur grein fyrir því en við fullorðna fólkið að ekki gengur öllum jafn vel að læra. Þau finna beint fyrir því hvernig langir biðlistar eftir greiningum, svo sem á lesblindu eða athyglisbresti, gera það að verkum að sum þeirra eiga erfitt með að fóta sig í skólakerfinu og flosna jafnvel upp úr námi. Þau spurðu: Af hverju er ekki í forgangi að laga þetta? En þau áttuðu sig einnig á því að það skiptir líka máli hver efnahagsleg staða fólks er. Hvað á að gera við börn sem lifa við fátækt? var ein af þeim spurningum sem brann á vörum þeirra. Já, strax á þessum aldri skilja þau mikilvægi þess að tækla hinn mikla ójöfnuð sem er í okkar ríka samfélagi. Lægstu laun þurfa að hækka og sambærileg laun fyrir sambærilega vinnu óháð kyni voru skilaboð sem þau sendu okkur hingað inn á hið háa Alþingi. Börnin upplifa þennan ójöfnuð nefnilega frá fyrstu hendi á meðan við, ráðherrar og þingmenn, erum föst í fílabeinsturni þar sem fátækt og skortur á nauðsynjum eru bara orð sem þingmenn stjórnarandstöðu nota í eldhúsdagsumræðum.

Frú forseti. Hvað á að gera við börnin sem þurfa á stuðningi að halda þegar kemur að geðheilsu? Það var einnig spurning sem þau veltu fyrir sér. Og skilaboðin til þeirra ráðherra sem mættu í pallborðið voru skýr: Börnin vilja fría sálfræðiþjónustu og aukið aðgengi að henni. Á meðan núverandi ríkisstjórn dregur lappirnar í að uppfylla loforð um að niðurgreiða sálfræðiþjónustu þá segir framtíð þessa lands okkur það að við þurfum að hugsa enn stærra og gera þessa þjónustu gjaldfrjálsa, því að strax á þeirra aldri átta þau sig á þeirri miklu þörf sem er fyrir að styðja við geðheilsu þjóðarinnar.

Já, frú forseti. Það er mikilvægt að við heyrum þetta ákall þeirra og hættum að brjóta loforð þingsins til þjóðarinnar. Hvað á að gera við börnin sem hingað koma á flótta frá stríði eða sárafátækt? Skilaboð barnanna á barnaþingi voru mjög skýr: Hættum að senda börn úr landi og tökum á móti fleiri börnum. Mikið væri nú heimurinn betri ef íslensk stjórnvöld hugsuðu eins og börnin á barnaþingi. Fyrir þeim er það að taka á móti fólki mannúð og það að fá fleiri börn með fjölbreyttan bakgrunn inn í skólakerfið eitthvað sem einungis bætir það.

Hvað á að gera við börnin sem munu erfa jörðina sem við skiljum eftir óbyggilega? var einnig spurning sem mikið var rædd á barnaþingi. Það er svo sannarlega hægt að segja að baráttan í loftslagsmálum sé háð af börnum. Á meðan við hv. þingmenn þráumst við að framkvæma nauðsynlegar breytingar til verndar umhverfinu þá mætir unga fólkið á Austurvöll hvern einasta föstudag og mótmælir aðgerðaleysi. Sömu skilaboð og við getum séð og heyrt út um glugga Alþingishúss á hverjum föstudegi ómuðu skýrt á barnaþinginu: Börnin vilja sjá alvöruaðgerðir. Fyrir þeim er þetta ekki eitthvað sem hefur áhrif eftir að þau eru komin undir græna torfu eins og fyrir flest okkar hér inni, heldur snertir þetta framtíð þeirra og möguleika barna þeirra til þess að búa á þessari plánetu til frambúðar.

Já, virðulegi forseti. Börnin vilja t.d. hætta notkun plasts, þau vilja betri flokkun úrgangs og öflugra hringrásarhagkerfi. Þau vilja öflugri hvata til þess að fólk skipti yfir í rafbíla og að almenningssamgöngur verði gjaldfrjálsar svo fólk nýti sér þær betur. Einnig voru þau öflugir talsmenn þess að gróðursetja fleiri tré og spurðu þingmenn spurninga eins og: Af hverju erum við ekki með fleiri vindmyllur á Íslandi?

Hvað á að gera við börnin sem segja okkur til syndanna á þeim frábæra vettvangi sem barnaþing er? Eigum við að halda áfram að hunsa rödd þeirra eða er kannski kominn tími til þess að við leggjum við hlustir og tökum mark á því sem þau eru að segja? Samfélagið er ekki búið að heilaþvo þau eins og okkur sem eldri eru. Mörg okkar eru hætt að trúa á betri framtíð því að þeir sem fara með völdin virðast hafa tapað tengingunni við það sem er að gerast allt í kringum okkur.

Já, hvað á að gera við börnin sem benda okkur á ranga forgangsröðun þeirra verkefna sem ríkið tekur að sér? Þegar allt kemur til alls eru þau ekki að biðja um mikið. Þau vilja að réttindi þeirra séu virt og þau fái að taka þátt í umræðunum um mál sem varða þau og þau vilja að tekið sé tillit til skoðana þeirra, helst þannig að hugmyndum þeirra sé hrint í framkvæmd.

Frú forseti. Það er ekki nóg að við komum hér saman hluta úr degi og tölum fallega um barnaþing og hvað þar kom fram. Það er ekki nóg að vera endalaust með falleg loforð og engar efndir. Það er kominn tími til þess að við hv. þingmenn spyrjum okkur sjálf raunverulega og séum tilbúin að svara þeirri spurningu sem brann á mér þegar ég var átta ára gamall: Hvað á að gera við börnin?