Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[18:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Varðandi helming kostnaðar þá kemur eftirfarandi fram í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta: „Að mati ráðuneytisins ætti styrkur fyrir 50% af kostnaði tækjabúnaðar að vera nægjanlega hvetjandi enda leiðir búnaðurinn til minni raforkunotkunar með tilheyrandi lækkuðum kostnaði fyrir notanda.“ Þetta mat ráðuneytisins, 50% af kostnaði tækjabúnaðar, virðist bara vera mat sem leiðir til þess sem er nægjanlega hvetjandi til að fólk fari að kaupa sér varmadælur, þ.e. að fólk leggi í útgjöld til að kaupa sér varmadælur. Það virðist ekki byggja neitt á þessum mun, sparnaði ríkisins og líka lækkuðum útgjöldum. Lá eitthvert annað mat fyrir, einhverjir útreikningar ráðuneytisins á því hversu mikið myndi annars vegar sparast við söluna á 110 gígavattstundum í aðra notkun, úr 11% skattþrepinu í 24% skattþrep, og hins vegar hversu mikið útgjöld til niðurgreiðslunnar til langs tíma myndu lækka?

Ég tel það skipta mjög miklu máli, ekki síst í ljósi yfirlýsingar í stjórnarsáttmálanum og yfirlýsinga þessarar ríkisstjórnar um að hraða orkuskiptum og um grænt hagkerfi og hversu framarlega við ætlum að vera í orkuskiptum á heimsvísu. Hér eru íbúar á köldum svæðum að leggja út í kostnað sem leiðir til sparnaðar og tekjuauka fyrir ríkisins. Við komum nú báðir frá svæðum sem eru ísköld svæði, má segja, og vitum að þetta skiptir miklu máli. Það mætti jafnvel hugsa sér að ríkið geti hagnast á þessu til lengri tíma litið, sem það mun að sjálfsögðu gera þar sem fólk er bæði farið í umhverfisvæna orkuöflun og orkunýtingin er meiri. (Forseti hringir.) Ég tel að hagnaðurinn ætti að fara til neytendanna en ekki til ríkisins. En það væri mjög gaman að heyra álit hv. þingmanns varðandi útreikninga ráðuneytisins ef þeir voru þá einhverjir.