Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[21:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni. Mig langaði bara að geta þess í upphafi, af því að hann vísar til mín sem framsögumanns, að vissulega flyt ég þetta nefndarálit en ég vil geta þess að framsögumaður málsins var hv. þm. Jódís Skúladóttir, sem er því miður fjarverandi núna en lagði mikla vinnu í málið og ég veit að þetta er henni mikið hjartans mál.

En að spurningunni varðandi fjárheimildir. Hér eru settir fjármunir í 1. liðinn, sem er um framkvæmdasjóð hinsegin málefna. Í greinargerðinni segir um þá aðgerð, með leyfi forseta:

„Framkvæmdasjóður hinsegin málefna verður starfræktur í forsætisráðuneytinu. Markmið sjóðsins er að efla starf stjórnvalda með úthlutun til verkefna ráðuneyta í Stjórnarráðinu sem tengjast hinsegin málefnum. Settar verða reglur um úthlutun úr sjóðnum og þær kynntar ráðuneytum fyrir 1. september 2022. Fyrirmynd að sjóðnum er sótt til framkvæmdasjóðs jafnréttismála og mun sjóðurinn geta stutt við verkefni og eftirfylgni við verkefni tengd aðgerðaáætlun þessari í hinsegin málefnum þannig að nýta megi niðurstöður, reynslu og þekkingu sem fæst með verkefnunum.“

Varðandi það hvað rúmast innan fjárheimilda þá held ég að óhætt sé að lesa í þetta þannig að í einhverjum tilfellum kunni ráðuneytin, sem bera ábyrgð á ákveðnum punktum í þessari aðgerðaáætlun, að þurfa að sækja í þennan sjóð. En í öðrum liðum, eins og til að mynda þeim sem ég nefndi um að breyta reglugerð, á ekki að þurfa sérstakar fjárheimildir. Ég held að hér séum við fyrst og fremst að ræða það að ítreka mikilvægi þessa málaflokks og ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni. Þetta snýst svolítið um að setja þessi gleraugu á í stjórnsýslunni, að stjórnsýslan okkar horfi á þessi markmið og sé meðvituð um mikilvægi þess að aðgerðaáætlunin verði uppfyllt. Svo get ég líka sagt það, vegna þess að ég og hv. þingmaður erum svo lánsöm að sitja líka saman í fjárlaganefnd, að það kann einmitt að vera okkar verkefni í eftirfylgninni að fylgjast með því þegar fjármálaáætlanir koma fram að þessi markmið séu sett þar undir viðeigandi málaflokka (Forseti hringir.) og þar sé úthlutað fjármunum og við upplýst um hvernig framgangur hvers og eins markmið gengur fyrir sig.