Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

bið eftir þjónustu transteyma.

697. mál
[17:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Á svipuðum tíma og lög um kynrænt sjálfræði náðu fullu gildi varð frekar neikvæð þróun innan heilbrigðiskerfisins varðandi þjónustu við þann hóp sem leitar sér kynstaðfestandi heilbrigðisþjónustu. Eitt af — ja, hvað eigum við að segja, eitt af fórnarlömbum þess álags sem kórnónuveirufaraldurinn lagði á heilbrigðiskerfið var nefnilega þessi þjónusta. Kynstaðfestandi aðgerðir voru ekki settar í þann forgang sem þeim hæfði og fyrir vikið þá lengdust og lengdust allir biðlistar.

Ég ætla samt ekki að tala um þá biðlista sem slíka hér og nú, biðlistana sem fólk býr við þegar það er komið í þjónustu transteymanna, þó að það sé kannski ekki úr vegi að hnippa í ráðherrann með þá ótrúlegu staðreynd að transteymin njóta ekki þjónustu innkirtlalæknis þessa dagana þannig að það er bara allt stopp hjá ákveðnum hópi varðandi þjónustu. Nei, það sem mig langar að ræða hér er biðin eftir því að komast í þjónustuna. Þetta er í rauninni biðlistinn eftir því að komast á biðlista. Það eru einhverjar tölur til hér í þingskjölum. Ég fletti upp fyrirspurn sem hæstv. ráðherra svaraði hér fyrir ári. Þar kom fram að 37 börn biðu í mars 2022 eftir því að komast að hjá transteymi barna. Meðalbiðtími væri sjö mánuðir og hefði eitthvað styst frá meðaltalinu sem var fyrir áramótin. En þetta er óskaplega langur tíma og hann hefur sveiflast. Maður heyrir sögur af fólki núna sem er ýmist foreldrar barna sem bíða eða fullorðið fólk sem er sjálft að bíða, sem þarf jafnvel að bíða í þessari óvissu í heilt ár.

Þess vegna langar mig að spyrja ráðherrann: Hver telur hann að sé ásættanlegur biðtími fyrir fólk að komast í þessa þjónustu, annars vegar til að komast í þjónustu transteymis barna og unglinga og hins vegar fullorðinna? Hvaða ástæður telur ráðherra að séu helstar fyrir því að biðtíminn er jafn langur og raun ber vitni? Til hvaða ráða hefur verið gripið til þess að stytta hann og hvaða áform eru uppi um að gera enn betur? Hvaða þjónusta stendur fólki til boða meðan það bíður eftir því að komast að hjá transteymum? Mig langar kannski sérstaklega að nefna þjónustu eins og niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu eða aðgengi að geðlæknum vegna þess að það er eitthvað sem fólk í þessari bið (Forseti hringir.) þarf á að halda, þ.e. einhverri handleiðslu til að komast í gegnum biðina. Það er alls ekki á færi allra að standa straum af 20.000 kr. sálfræðingstíma sem þarf kannski að eiga sér stað (Forseti hringir.) nokkrum sinnum í mánuði, hvað þá að við getum ætlast (Forseti hringir.) til þess að frjáls félagasamtök eins og Samtökin ´78 taki upp þennan slaka (Forseti hringir.) af því sem ætti að vera sameiginlegt félagslegt heilbrigðiskerfi okkar allra.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna þingmenn á að virða ræðutíma.)