Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 88. fundur,  27. mars 2023.

endurskoðun laga um verndar- og orkunýtingaráætlun.

601. mál
[18:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Isaksen) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör og einnig þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðunni því að þetta er virkilega mikilvægt mál og kemur svo sem ekkert á óvart hversu mikla áherslu hæstv. ráðherra leggur á það þessa dagana. Það er mjög ánægjulegt að heyra að þessi endurskoðun eigi að fara af stað næsta haust og að horfa eigi á heildarmyndina, því að eitt atriði í þessu nær ekki yfir allt stóra verkefnið sem við stöndum frammi fyrir þessa dagana og næstu ár og jafnvel áratugi. Varðandi vindorkuverin, líkt og hæstv. ráðherra kom inn á, með afmörkuð svæði og að þar séu tengivirki fyrir og það sé í rauninni hægt að koma orkunni sem framleidd er áleiðis er auðvitað afar mikilvægt. En líka, af því að nú erum við að stíga okkar fyrstu skref í tengslum við vindorkuna, er mikilvægt að við lærum af öðrum þjóðum, tökum til okkar það sem er gott og reynum kannski einnig að forðast það sem miður fer. Mikilvægt er líka að horfa til sveitarfélaga og þeirra svæða þar sem við sjáum fyrir okkur einhvers konar vindorkuver og þá einnig með hagkvæmni og staðsetningu að leiðarljósi og náttúruperlanna okkar vissulega líka. Hagkvæmni er sífellt meiri áskorun fyrir okkur varðandi orkunýtingu, að þetta sé gert á hagkvæman hátt — af því að við vorum að koma inn á verndar- og nýtingaráætlunina áðan og friðlýsingu.

En mig langar að koma inn á annað mikilvægt málefni sem hefur að mínu mati ekki fengið nægilega athygli, sem er samspil náttúruhamfara og orkuöryggis. Af því að við erum að ræða um kosti sem rammaáætlun tekur til þá eru mögulegar náttúruhamfarir eitt atriði sem þarf að horfa til, því að Ísland er jú eldfjallaland og við búum við þá staðreynd að náttúruhamfarir geta haft áhrif á innviði okkar með þeim afleiðingum að valda straumleysi jafnvel á stóru svæði. Til að mynda ef við horfum á það að til eldgoss kæmi í Bárðarbungu þá gæti það valdið víðtæku og alvarlegu straumleysi á höfuðborgarsvæðinu sem væri í rauninni ekki hægt að laga eða að ráða bót á bara á einfaldan máta. (Forseti hringir.) Ég vil alla vega leggja til að það sé skoðað. Ég tel að þörf sé á að kortleggja (Forseti hringir.) hvar helstu virkjanir landsins eru, einmitt með tilliti til jarðskjálfta og eldgosa og setja í forgangsröð (Forseti hringir.) þá kosti sem teljast til þeirra.