154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv forseti. Í þessum mánuði eru tvö og hálft ár frá alþingiskosningunum 2021. Það hefur ýmislegt gerst á þessum tíma en það er miklu fleira sem ekki hefur gerst. Eins og hæstv. forseti var að lesa hér áðan er mikið um fresti. Það er beðið um fresti, mál eru flutt, stjórnarmál eru endurflutt, þau stranda í nefndum, þau eru ekki afgreidd. Það gerist ekki neitt á hinu háa Alþingi undir stjórn meiri hluta þessarar ríkisstjórnar. Eitt dæmi um slíkt er ferli samgönguáætlunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem hefur verið þar inni í nefndinni síðan í október til umfjöllunar af og til. Og við höfum líka verið að bíða eftir uppfærslu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem fór í uppfærslu fyrir réttu ári síðan og er enn í uppfærslu, væntanlega í samtali við innviðaráðuneytið og hæstv. innviðaráðherra. Það er ekkert að gerast og það eina sem við gerum er að bíða; bíða eftir því að þessir þrír stjórnarflokkar geti ákveðið eitthvað sameiginlega eða komið sér saman um það hvaða mál, jafnvel grundvallarmál eins og samgönguáætlun, verði afgreidd á yfirstandandi þingi.

Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem maður vill helst ekki fara upp og tala um, hæstv. forseti. En mér er einfaldlega nóg boðið af þessum vinnubrögðum. Ég hef setið hér nógu lengi til að vita að svona á þetta ekki að vera og svona þarf þetta ekki að vera. Við eigum sem þingmenn í nefndum okkar og annars staðar að leggja okkur öll fram um að afgreiða þau mál sem varða hagsmuni almennings og fyrirtækja í landinu. Samgönguáætlunin bíður, menn eru að brenna inni á tíma með útboð og framkvæmdir og annað slíkt fyrir sumarið og það er látið eins og ekkert sé. Frestunarárátta þessarar ríkisstjórnar ríður ekki við einteyming. Ég ætla að vitna í formann Samfylkingarinnar sem sagði í fréttum í gær: Fer þetta ekki að verða gott, forseti?