154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

aðkoma stjórnvalda að kauptilboði Landsbankans í TM.

[14:09]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þessa beiðni. Hér hafa hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins andmælt sérstaklega þegar ég bendi á að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra virðist ekkert hafa aðhafst vegna kaupa Landsbankans á stóru tryggingafélagi fyrr en eftir að bindandi kauptilboð hafði verið lagt fram og samþykkt. Ég held að við hljótum að vera sammála um að það geti ekki ríkt einhver upplýsingaóreiða hér um þetta mál. Við verðum bara að fá fram öll þau samskipti sem fóru á milli hæstv. ráðherra og Bankasýslu ríkisins. Við þurfum að fá að vita hvaða upplýsingum fjármálaráðherra kallaði eftir, hvernig hæstv. fjármálaráðherra fylgdi eftir þeim vilja sem hún varpaði fram í hlaðvarpi í byrjun febrúar og við þurfum að fá skýringar á því, fyrst þetta er afstaða ráðherra, hvers vegna hæstv. ráðherra beitti ekki með neinum hætti þeim heimildum sem hún sannarlega hefur samkvæmt lögum um Bankasýslu ríkisins til þess að grípa til ráðstafana vegna ákvarðana sem hún kann að hafa talið fara í blóra við eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þess vegna tek ég undir þessa kröfu um að það verði liðkað sérstaklega fyrir sérstakri umræðu eða skýrslugjöf um þetta mál sem allra fyrst.