154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

aðkoma stjórnvalda að kauptilboði Landsbankans í TM.

[14:16]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Það er sjálfsagt, eins og stjórnarandstaðan og stjórnarandstöðuþingmenn eru að nefna hér, að sala á TM Tryggingum til Landsbankans, ríkisfyrirtækisins, verði rædd hér í þingsal. Ég held að það sé sjálfsagt að fá upplýsingar um það hvernig bankaráð Landsbankans telur að þessi ráðstöfun standist eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Þetta er sjálfsagt að ræða. Ég tel líka að það sé sjálfsagt að ræða að það er ekki skynsamlegt að ríkið eigi svona stóran hlut í fjármálafyrirtækjum í landinu og það er á leiðinni frumvarp, eins og hefur komið fram eftir ríkisstjórnarfund í dag, um nánari tilhögun á sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

En ég vil nefna það, herra forseti, að við skulum taka skrefin í réttri röð. Bankasýsla ríkisins hefur beðið bankaráð um útskýringar á þessu, greinargerð, (Forseti hringir.) og gefinn sjö daga frestur. Eigum við ekki að láta þann tíma líða, eigum við ekki að láta upplýsingar frá (Forseti hringir.) bankaráði Landsbankans koma fram þannig að hæstv. fjármálaráðherra geti gefið þinginu greinargóð svör?