154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

aðkoma stjórnvalda að kauptilboði Landsbankans í TM.

[14:17]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að fara fram á að fjármálaráðherra komi hér og upplýsi þingið um það hvað raunverulega er í gangi því að atburðarásin í þessu máli frá fyrstu stundu er mjög sérkennileg. Það er afar sérkennileg staða að hér sé það þannig að á vakt hægrisinnaðasta flokksins í ríkisstjórninni sé verið að ríkisvæða tryggingafélag en flokkur til vinstri í stjórnarandstöðunni kemur hér upp og vill fá að eiga orðastað við ráðherra um það, sem er auðvitað sjálfsagt mál að styðja. Svona er nú málið allt sérkennilega vaxið.

Það sem ég vildi segja er þetta líka: Okkur vantar frekari skýringar á því hvað hæstv. ráðherra átti við með því þegar hann talaði um að það þyrfti að ræða um mögulega sölu á Landsbankanum samhliða þessu máli, sem síðan varaformaður Framsóknarflokksins og formaður VG og hæstv. forsætisráðherra slógu til baka hér í gær. Það liggur einfaldlega ekki alveg nákvæmlega fyrir í hvaða röð (Forseti hringir.) ríkisstjórnin ætlar að gera þetta, ef við tökum mark á orðum hæstv. fjármálaráðherra, og því er mjög brýnt að við (Forseti hringir.) fáum skýringar hér hið fyrsta.