154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

aðkoma stjórnvalda að kauptilboði Landsbankans í TM.

[14:18]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þegar þessi vika er liðin erum við farin í tveggja vikna þinghlé. Auðvitað er æskilegt að fjármálaráðherra komi hingað og svari spurningum sem hafa vaknað og ég óskaði eftir því á fundi með forseta síðastliðinn mánudag að reynt væri að bregðast við þeim óskum með sérstökum fyrirspurnatíma núna á föstudaginn ef ráðherra yrði kominn heim. Þetta er nefnilega svolítið sérstakt vegna þess að einn aðili máls lætur í veðri vaka að þetta hafi gerst mjög skyndilega á meðan allir sem eitthvað þekkja til átta sig á því að það er margra mánaða undirbúningur að svona viðskiptum. Við vitum öll að Bankasýslan hefur verið vængstýfð síðustu mánuði og ár eftir misheppnaða sölu á hlut í Íslandsbanka þannig að það er gríðarlega mikilvægt að ráðherra upplýsi og svari þeim spurningum sem vaknað hafa um fyrirkomulag sölunnar. (Forseti hringir.) Það er kannski þetta með armslengdina. Hún er mikilvæg en ákvæði um armslengd hér þýðir ekki armslengd frá pólitískri ábyrgð og það er mjög mikilvægt að hafa það í huga. (Forseti hringir.) En til þess að bera slíka ábyrgð, t.d. í þingsal, þurfum við að hafa upplýsingarnar og tímalínuna á hreinu.