154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[16:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Aðeins svona í kjölfarið á andsvörum mínum við formann velferðarnefndar og framsögumann nefndarálits, þar sem ég kvartaði dálítið yfir því að þetta mál hérna sé í rauninni tilgangslaust hvað þingið varðar. Við þurfum ekkert á þinglegri meðferð að halda til að stofna starfshópa, mál um að stofna starfshópa, það eru stjórnvöld sjálf sem leggja fram þetta mál. Ríkisstjórnin, ráðherra í ríkisstjórn segir: Þetta þarf að gera. Hvað er það sem þarf að gera? Það er nefnilega dálítið áhugavert.

Rennum yfir aðalatriðin í hverri grein, það sem er lagt til hérna. Það er að auka vitund almennings, upplýsa almenning, tryggja að samráðshópar og notendaráð verði starfrækt um allt land. Rýndir verði fyrstu þrír sameiginlegu kaflarnir í aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla. Auka almennan sýnileika fatlaðs fólks. Kortlagning á greiningu á sýnileika. Halda lista yfir nöfn fatlaðs fólks með fjölbreyttan bakgrunn sem er tilbúið til að taka þátt í opinberri umræðu. Þjálfun fyrir fatlað fólk, þjálfun fjölmiðlafólks, gerð námsefnis um réttindi fatlaðs fólks, fræðsluefni fyrir starfsfólk, leiðbeiningar, fræðsluefni. Talsmaður fatlaðs fólks á þingi. Skoða hvernig hægt er að safna gögnum. Upplýsingar um réttindi og þjónustu verði á einum stað. Hagsmunasamtök geti sótt um að gera styrk til að gera gagnrýnar athugasemdir. Endurskoðun laga, endurskoðun skipulags og verkferla. Greiða aðgengi að rafrænni þjónustu. Stofnaður verði vinnuhópur, endurskoðuð verði ákvæði, útbúin ný og endurskoðuð rafræn handbók, skilgreina hlutverk, skipa aðgengisfulltrúa. Kortlagt verði, kortlagt verði, kortlagt verði — þetta eru þrjár mismunandi greinar — hvernig best megi sníða fíknimeðferð að þörfum fatlaðs fólks. Stofnaður verði verkefnishópur, hafinn verði undirbúningur, endurskoðun greiðslukerfis, skipaður verði starfshópur, endurskoðaðar verði, verkefnahópur vinni, verkefnið felst í kortlagningu og greiningu, vinna leiðbeiningar á grunni kortlagningar. Mótaðar verði leiðbeiningar, þriggja ára áætlun um breytingar á skipulagi, leiðbeiningar fyrir starfsfólk. Allt nám verði staðfest skriflega, fram fari áhrifamat, leitað verði leiða til að auka framboð, vinnuhópur skoði kosti og galla, gerð verði úttekt, samstarf verði aukið, markvisst verði leitað leiða, unnið verði að því, vinnuhópur endurskoði gildandi leiðbeiningar, vinnuhópur móti samræmt verklag, leitað verði leiða, unnar verði leiðbeiningar, verkefnishópur kanni þörf, verkefni feli í sér að kortleggja og rýna núverandi þjónustu. Kortlagðar verður þær hindranir og það misræmi sem fatlað fólk býr við. — Í alvörunni? Þarf á því að halda? segi ég kaldhæðnislega. — Mótun leiðbeininga, gætt verði að hagsmunum og réttindum fatlaðs fólks í þróunarsamvinnu. — Já, er það ekki sjálfgefið? (Gripið fram í: Jú, jú.) Starfshópi verði falið að marka leið, starfshópur greini möguleika á auka samfellu og unnið verði frumvarp.

Til hvers er ríkisstjórnin að leggja fram þessa þingsályktunartillögu um það sem hún getur bara gert fyrir 55 millj. kr.? (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Er það ekki dálítið skrýtið þegar allt kemur til alls? (BjG: Eitt ráðuneyti, Björn. Þetta er bara félagsmálaráðuneytið. Þessi … ) Það er einmitt vandamálið. Kostnaðarmatið frá félagsmálaráðuneytinu er upp á 55 milljónir. Innviðaráðuneytið, fjármálaráðuneytið, sveitarfélögin o.s.frv. eru ekki þarna undir í kostnaðarmatinu. (Gripið fram í: Við látum bara …) — Alveg rétt. Það er þeim mun verra að það séu bara kostnaðarmetin þau verkefni sem félagsmálaráðuneytið ber ábyrgð á í þessari tillögu.

Þegar allt kemur til alls þá snýst þetta um að stjórnvöld séu að sýnast vera að gera eitthvað þegar þau gætu bara gert eitthvað. Svo einfalt er það. Stofnið bara starfshóp, gerið það bara. Til hvers að eyða tíma þingsins í þinglega meðferð um það að stofna starfshóp? Í alvörunni. Það er vandinn við það sem við erum að glíma við núna í þessari blessuðu ríkisstjórn sem getur ekki gert neitt heldur getur bara búið til áætlanir um hvað þarf að gera. Svo þarf að kostnaðarmeta þær áætlanir sem koma að lokum. Við höfum ekki hugmynd um hvað þær kosta. Þær hafa ekki verið kostnaðarmetnar í fjármálaáætlunum undanfarið. Þess vegna kom upp úr kafinu að þegar allt kom til alls kostuðu lögin um réttindi fatlaðs fólks miklu, miklu meira en búist var við af því að það var í rauninni bara einhver stjórnsýslukostnaður þar inni í. Ábendingar Reykjavíkurborgar um það hvað það myndi í raun og veru kosta að byggja upp húsnæðið sem var í raun gerð krafa um í þeim lögum, hver kostnaðurinn þar á bak við væri voru bara hunsaðar. Það var bara hunsað: Nei, nei, það er ekkert mál. Svo bara hrúguðust milljarðarnir á sveitarstjórnarstigið af því að kostnaðarmatið var ekki rétt gert og þegar kostnaðarmatið er ekki rétt gert þá tökum við lélegar ákvarðanir hér á þingi því að við erum líka með fjárveitingavaldið.

Við þurfum að skilja heildarsamhengi þess hvað svona starfshópar, ekki bara starfshópar kosta heldur tillögurnar sem þeir munu koma með kosta. Hver er kostnaðarramminn sem starfshóparnir hafa til að vinna með til þess að að sauma þessar tillögur sínar innan? Ekkert svoleiðis. Þess vegna segi ég: Þessi tillaga er gjörsamlega gagnslaus, eyðsla á tíma þingsins. Við höfum margt annað betra við tímann að gera.