136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

gjaldfrjáls göng.

304. mál
[14:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ólafsdóttir) (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langar til að fá svar við spurningu minni hvort hæstv. samgönguráðherra hyggist beita sér fyrir gjaldfrjálsri umferð um Hvalfjarðargöng líkt og flokkur hans lagði til fyrir síðustu kosningar. Í síðustu kosningum lofuðu samfylkingarmenn gjaldfrjálsum göngum, afhentu fólki frímiða í göngin og sögðu að ef þeir kæmist til valda yrði gangagjaldið afnumið. Þar á meðal stóð núverandi forseti Alþingis — ekki þó sá sem situr í stól forseta í augnablikinu — við göngin með sínu fólki og lofaði gjaldfrjálsum göngum. Einnig var þetta loforð Samfylkingarinnar í kosningabæklingum og í öllum ræðum manna þar á bæ, alla vega á Vesturlandi.

Samfylkingin talaði um Sturlaðar samgöngur með stórum staf og var þar vitnað til fyrrverandi samgönguráðherra. En samgöngurnar eru enn þá sturlaðar með litlum staf. Þar sem samgönguráðherra Samfylkingarinnar er ekki enn búinn að afnema gjaldið af göngunum samkvæmt loforðum samfylkingarmanna spyr ég: Er jafnræðisreglunnar samkvæmt stjórnarskránni gætt þó að göngin hafi verið byggð í einkaframkvæmd?

Þessi gjaldtaka var barn síns tíma en er til háborinnar skammar á tímum mikilla erfiðleika í þjóðfélaginu. Við íbúar Norðvesturlands eigum ekki að þurfa að vera 2. flokks þjóðfélagsþegnar með aukna skattlagningu á við aðra landsmenn þar sem engin önnur göng í landinu eru gjaldskyld. Stöðugt er verið að safna gögnum og rannsóknum fyrir öðrum samhliða göngum og hvað skyldi það hafa kostað? Og hvað skyldi rúmlega 300 þúsund manna þjóð hafa að gera með önnur göng þegar milljónaþjóðir munu láta sér nægja ein göng? Álagið sem stundum er við göngin er vegna þess að gjaldskýlið stoppar umferð og með afnámi gjaldtökunnar mundi umferðin ganga mun betur fyrir sig. Ég ræddi við Gylfa Þórðarson, forstjóra Spalar, í morgun og hann sagði mér að skuldir Spalar væru um það bil 4 milljarðar í dag vegna misgengis vísitölu og gengis. Gróðinn sem talinn var koma fram í fjölmiðlum á sínum tíma var vegna gengishagnaðar.

Ef farið yrði í framkvæmdir samhliða núverandi göngum undir Hvalfjörð mundi Vegagerðin sennilega standa að þeim, eða það taldi Gylfi líklegast. Ég spyr: Telur ráðherra að farið verði í slíkar framkvæmdir og ef svo er, hvers vegna? Hvað höfum við við önnur göng að gera í því ástandi sem nú er? Ég spyr líka: Væri ekki viturlegra að laga veginn á Kjalarnesinu og að göngunum?