136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

gjaldfrjáls göng.

304. mál
[14:34]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Veggjald um Hvalfjarðargöng hefur lækkað heil ósköp frá því að göngin voru opnuð sumarið 1998. Umferðin var mun meiri en ráð var fyrir gert og auknar tekjur gera mögulegt að láta viðskiptavinina njóta þess með lægra gjaldi en ella. Miðað var við í upphafi að veggjaldið fylgdi vísitölu neysluverðs en reyndin er sú að það hefur lækkað, bæði í krónum talið og miðað við verðlag.

Sem dæmi um það má nefna að gjald fyrir einstaka ferð venjulegs fólksbíls í 1. flokki árið 1998 var 1.000 kr. Það ætti að vera 1.560 kr., miðað við mars 2008 — ég er með það gamlar tölur — en var, miðað við sömu vísitölu, 800 kr. Lægsta mögulega áskriftargjald fyrir venjulegan fólksbíl sem var í upphafi 600 kr. 1. júlí 2008, ætti sennilega að vera 935 kr. 1. mars 2008 og töluvert hærra nú. En nú er það 230 kr. þannig að við sjáum hvað áunnist hefur hvað þetta varðar.

Skömmu eftir síðustu kosningar hófst umræða af hálfu rekstraraðila ganganna, Spalar ehf., um að tvöfalda ætti Hvalfjarðargöng á allra næstu árum, enda væri umferðarþunginn orðinn slíkur. Vegagerðin og Spölur ehf. gerðu í því skyni með sér samkomulag árið 2007 m.a. um að hefja frumundirbúning að tvöföldun Hvalfjarðarganga. Í því sambandi þurfti að horfa til margra þátta eins og aukinnar afkastagetu, aukins umferðaröryggis, gerðar umhverfisskýrslu vegna framkvæmdanna og laga og reglna um sérleyfi og útboð. Það var því ljóst að forsendur gjaldfrjálsra ganga væru brostnar. Í mínum huga kom ekki til greina að afnema gjaldtöku á sama tíma og í umræðunni voru hugmyndir um meiri háttar framkvæmdir gerð annarra ganga við hlið þeirra sem nú eru. Sjónarmið mitt var að tvöfalda ætti göngin þegar umferðarþunginn væri orðinn slíkur að það réttlæti slíka framkvæmd.

Á síðasta ári var mun minni umferð en verið hefur undanfarin ár. Má segja að við höfum færst aftur í svipaðan umferðarþunga og var árið 2002. Gjaldfrjáls Hvalfjarðargöng mundu hafa í för með sér mikinn kostnað fyrir ríkið eða ríflega 4 milljarða kr. sem menn sáu fyrir sér að væri kannski raunhæft í kosningunum árið 2007 en það var bragur þess ágæta árs. Það var svona dálítið 2007.

Nú er öldin önnur. Gjaldfrjáls Hvalfjarðargöng voru ekki á stefnuskrá síðustu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og eru heldur ekki á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en eitt er að yfirtaka skuldirnar, 4 milljarða og ýmsar aðrar skuldbindingar eru þarna líka. Við getum tekið dæmi af rekstrarkostnaði ganganna sem er um 100–120 millj. kr. á ári og vextir af lánum eru nú í kringum 170 millj. kr. þannig að skuldbinding ríkisins, ef af þessu yrði, væri miklu hærri en 4 milljarðar kr.

Ég vildi láta þetta koma fram, virðulegi forseti, í umræðunni en ef við getum ímyndað okkur að skuldbinding ríkisins væri kannski upp undir 6 milljarðar kr. sem væri kostnaðurinn við framkvæmdina, er það sama upphæð og við höfum núna til nýrra útboða á vegum Vegagerðarinnar á þessu ári — 6 milljarðar, ný útboð. Það er sama upphæð og samgönguáætlun var skorin niður um vegna erfiðleika í þjóðarbúskapnum við síðustu fjárlagagerð. En á móti kemur, virðulegi forseti, að á þessu ári, 2009, verður annað mesta framkvæmdasöguár í samgönguframkvæmdum á Íslandi. Við munum vera í samgönguframkvæmdum fyrir allt að 21–23 milljarða kr. á þessu ári sem er erfiðleikaár, eins og við ræðum oft um.

Því segi ég, virðulegi forseti, að þetta ber líka að hafa í huga þegar talað er um að gera Hvalfjarðargöng gjaldfrjáls, þá verður að taka það einhvers staðar frá. Mig langar í lok fyrri ræðu minnar að spyrja hv. þingmann: Hvað mundi hún vilja láta skera niður í samgönguframkvæmdum ef skuldir Spalar yrðu yfirteknar fyrir allt að 6 milljarða kr., hvar ætti að skera niður í samgönguframkvæmdum í staðinn?