136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

rekstur skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

312. mál
[15:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Björk Guðjónsdóttur fyrir þessa fyrirspurn sem varðar rekstur skurðstofu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Spurt er um fyrirætlanir varðandi rekstur skurðstofu þar.

Eins og Alþingi er kunnugt hafa orðið talsverðar umræður um fyrirhugaða starfsemi á skurðstofum á höfuðborgarsvæðinu almennt og hafði fyrirrennari minn í embætti, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, uppi hugmyndir um ýmsar breytingar í þeim efnum, m.a. að loka skurðstofunni á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og færa stóran hluta þeirrar starfsemi inn á skurðstofurnar á Suðurnesjum sem ekki eru að fullu nýttar eins og hér hefur komið fram.

Ég hef ákveðið að fara betur yfir allar upplýsingar sem að þessu máli snúa og hef í dag skipað nefnd sem hefur það verkefni með höndum að samhæfa starfsemi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi annars vegar og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hins vegar. Í þessari nefnd sitja forstjórar þessara stofnana tveggja auk fulltrúa lækningasviðs og hjúkrunarsviðs. Að nefndinni eiga einnig aðild fulltrúar almannasamtaka á svæðinu, hollvinasamtaka sjúkrahússins og félags eldri borgara auk fulltrúa frá sambandi sveitarfélaga á svæðinu. Þarna er reynt að kalla saman að máli fulltrúa þeirra stofnana sem tengjast þessari samhæfingu og þá er ég að horfa til Landspítalans og sjúkrahúss Suðurnesja auk þessara almannasamtaka.

Samkvæmt erindisbréfi er þessari nefnd gert að skila frá sér áliti 16. mars nk. Ég vil taka það fram að einnig er að störfum nefnd sem er að skoða svipað og samsvarandi verkefni varðandi St. Jósefsspítala. Sú nefnd á að skila af sér 12. mars, þ.e. nokkrum dögum áður, enda var hún skipuð fyrir fáeinum dögum. Það er verið að hraða þessu starfi því að ég tek undir með hv. þingmanni að óvissan er slæm og mikilvægt að greiða úr þessum málum hið allra fyrsta. Mikilvægast af öllu er þó náttúrlega að fá lausn sem sátt er um í umhverfinu og er jafnframt hagkvæm fyrir skattborgarana.