141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

staða og uppbygging hjúkrunarrýma.

[14:29]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég skil vel að þingmenn fari aðeins fram úr tímamörkum því að það er gaman að vera í ræðustóli Alþingis og ræða mál þegar þingmenn eru allir nokkurn veginn að toga í sömu áttina. Þetta er mál sem varðar okkur öll, skiptir okkur öll miklu máli, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir kom inn á, þetta snertir okkur öll með einhverjum hætti.

Þetta er málaflokkur sem fer ekkert í burtu. Á næstu 20 árum mun sá fjöldi einstaklinga sem eru 75 ára og eldri tæplega tvöfaldast. Til 2050 mun þeim sem eru 67 ára og eldri fjölga um 50 þúsund. Það sér það náttúrlega hver heilvita maður að við leysum ekki þann vanda sem þjónusta við þennan hóp getur skapað með því einu að byggja úr steinsteypu eins og þingmenn hafa nefnt hér. Þjónustan heim verður að batna, endurhæfingarúrræði verða að batna og við verðum líka að hugsa meira út í það hvernig við getum aukið við sjálfstæða búsetu aldraðra en með aukinni þjónustu, til að mynda með þjónustuíbúðum, eins og víða hefur verið gert, með alls konar öryggistækni eins og hér hefur verið komið inn á o.s.frv.

Frú forseti. Það hvernig samfélög koma fram við þá þegna sína sem eru í mestri þörf fyrir aðstoð lýsir því kannski best hversu kröftug og öflug þau eru. Við eigum sem þjóð að hafa metnað í þessum málaflokki. Við eigum að hafa þann metnað að koma vel fram og af myndugleik við þann hóp þjóðarinnar sem í raun kom þessu þjóðfélagi almennilega á lappirnar.