141. löggjafarþing — 88. fundur,  26. feb. 2013.

staða og uppbygging hjúkrunarrýma.

[14:36]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu og ítreka að það er ánægjulegt að allir eru að toga í sömu átt, eins og hér var sagt. Við höfum verulega góða þjónustu á mörgum sviðum en það er margt sem þarf að bæta. Við höfum verið að eyða fjölbýlum, eins og hér hefur komið skýrt fram, á mjög mörgum stöðum og ber að fagna því. Það eru gerðar nýjar og meiri kröfur, en eins og hv. málshefjandi benti á þarf að laga það víðar, þ.e. halda þeirri vinnu áfram, auk þess að hafa rými tilbúin.

Það hefur líka komið fram að úrræði fyrir aldraða þurfa að vera fjölbreytt og það þarf að bera virðingu fyrir sjónarmiðum fólks sem er á þessum aldri. Við getum séð fyrir okkur að jafnvel verði aukin notendastýrð persónuleg aðstoð hjá öldruðu fólki og að fleiri valkostir verði í boði. Hér kom athyglisverð áminning um það sem við stundum gleymum, að aukin tækni getur líka hjálpað okkur til að gera þessum aldurshópi lífið bærilegra. Þó má ekki gleyma því að aldraðir á Íslandi eru almennt mjög virkir þátttakendur í samfélaginu, taka þátt í atvinnulífi lengur en víðast annars staðar, en um leið er það einn af veiku blettunum á hjúkrunarheimilunum þegar við höfum þrengt þar að, þ.e. virkni einstaklinganna þar og félagslega þjónustan sem þar er veitt eða ekki veitt.

Hér hafa komið athugasemdir um Landspítalann og þá aðila sem þar eru inni sem verða auðvitað að fara í gegnum færni- og heilsufarsmat og eru síðan valdir af viðkomandi hjúkrunarheimili, þ.e. hvort þeir fái rými. Ég deili áhyggjum með hv. þingmönnum af því enda er verið að skoða hvernig megi bregðast við. Það þarf að leysa þann vanda. Við viljum líka halda því mjög vel til haga að hér er verið að fara yfir málaflokkinn allan í heild vegna yfirfærslunnar til sveitarfélaganna. Ég tek undir með hv. þingmanni að þar þurfum við að tryggja að töluleg gögn séu uppfærð og nákvæm og líka gefnar samræmdar forsendur fyrir því hvernig við metum hlutina.

Í umræðunni um Landspítalann er einmitt verið að skoða Vífilsstaði vegna þess að þeir losna bráðum. Þeir eru í notkun núna hjá Garðbæingum en ef til vill geta þeir orðið hluti af lausninni. Allt kostar þetta peninga þannig að við þurfum að fara varlega í að gefa einhver loforð þar um.

Ég ítreka þakkir til þeirra sem tóku þátt í umræðunni og tek undir að það er ánægjulegt þegar við erum að vinna að (Forseti hringir.) sameiginlegum lausnum á stórum viðfangsefnum eins og þessum, viðfangsefnum sem við þurfum að leysa á hverjum tíma.