143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:16]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hv. þingmanni ræðuna verð ég að viðurkenna að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum með þau viðhorf sem hann lýsti hér, að hann skyldi segja að þeir hagsmunir sem uppi eru í þessu máli, sú staða sem upp er komin í Vestmannaeyjum, séu einhvers konar samfélagsleg óþægindi. Ég held að það séu því miður ekki réttu orðin til að lýsa því. Mér finnst afskaplega mikið úr því dregið um hve ríkt hagsmunamál er að ræða.

Mér fannst líka ósanngjarnt að heyra af þeirri gagnrýni sem beindist að málsmeðferðinni sem fram fór í nefndinni. Við höfum eitt fordæmi fyrir sambærilegu máli, það mál var í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar ríkisstjórnin setti lög á verkfall flugvirkja, árið 2010, ríkisstjórn sem hv. þingmaður sat í.

Ég einsetti mér að í nefndinni mundum við fylgja sama fordæmi, við mundum kalla til sömu aðila og reyna að hafa svipaðan feril á málinu. Reyndar gengum við lengra. Þó að ég hafi ekki fallist á það í fyrstu ákváðum við að kalla fyrir forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands og benti Gylfi Arnbjörnsson sérstaklega á að hann hefði ekki verið kallaður til í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Mér fannst líka ósanngjarnt að heyra að eingöngu aðilar frá Vestmannaeyjum hefðu verið kallaðir á fund nefndarinnar. Það einfaldlega þannig að þeir óskuðu eftir því að fá að koma fyrir samgöngunefnd og við því var brugðist með eins til tveggja daga fyrirvara með samþykki allra nefndarmanna. Það var engin beiðni, hvorki frá deiluaðilum, stjórnarandstöðunni né nokkrum öðrum, um að fá að koma á fund (Forseti hringir.) nefndarinnar, sem nefndin hefði að sjálfsögðu orðið við. (Forseti hringir.) Það eru svona atriði sem ég kann afar illa við að séu tínd til þegar við ræðum jafn mikilsverða hagsmuni og raun ber vitni.