143. löggjafarþing — 88. fundur,  1. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[23:56]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef margsinnis velt fyrir mér hugtakinu almannahagsmunir og meira að segja skrifað nokkrar greinar. Ég er þeirrar skoðunar í þessu máli, eins og öllum öðrum sem ég hef tjáð mig um þegar almannahagsmunir eru annars vegar, að ríkar kröfur þurfi. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða lög á verkföll, friðhelgi einkalífsins, eignarréttinn eða önnur mikilvæg réttindi, við verðum alltaf að fara varlega.

Í þessu máli er þetta ekkert öðruvísi. Það sem ég vil minna helst á í umræðunni núna er að við, þingið, löggjafarvaldið, metum almannahagsmunina. Það er alltaf þannig. Hvort sem það eru íslenskir dómstólar eða Mannréttindadómstóll Evrópu, alls staðar gefa dómstólarnir löggjafarvaldinu mikið svigrúm.

Hvernig er það í þessu máli? Hér eru raunverulega undir innviðir heils samfélags. Þetta snýst ekki bara um eitthvert fjárhagstjón einstakra fyrirtækja sem alltaf má búast við í verkfalli, þetta snýst um innviði samfélagsins. Það eru lögbundin verkefni að halda uppi eðlilegum samgöngum svo samfélagið í Eyjum geti yfir höfuð fúnkerað og þegar slíkir hagsmunir eru undir teljast þeir almannahagsmunir.

Hér hefur verið minnst á dóm Hæstaréttar frá 2002 um mál sem er að vísu allt öðruvísi. Þar er raunverulega bara fjallað um efnahagslega hagsmuni sem voru miklir og mjög almennir fyrir alla þjóðina.

Dómstóllinn gerði auðvitað ekki kröfu um að þannig yrði það að vera í öllum tilvikum ef það ætti að setja lög sem stöðvuðu verkfall heldur tók það sem rök í því máli sem þar var til umfjöllunar. Í því máli sem hér er núna til umræðu er alveg ljóst að þetta er farið að sliga samfélagið í Vestmannaeyjum, þetta hefur áhrif á möguleika fólks á að sækja læknisþjónustu, sækja mikilvæga þjónustu.

Við getum ekki sagt í öllum tilvikum að það sé alltaf fylgifiskur verkfalls því að svo er ekki. Þó að verkfall geti undir vissum kringumstæðum bitnað á þriðja aðila bitnar það fyrst og fremst á þeim sem eru að semja í hverju tilviki þó að það geti haft einhver áhrif til óþæginda fyrir aðra. Í þeim tilvikum eru það ekki almannahagsmunir sem krefjast þess að slík verkföll séu stoppuð með lögum, það á hins vegar við aðstæður núna í þessu. Við getum alveg tekið sama dæmið og var hér 2010 þar sem fyrirhugað verkfall var stöðvað, sem ekki var þó komið á, en hafði að gera með samgöngur til og frá landinu. Það eru engin önnur sjónarmið í þessu máli hér. Þetta hefur með samgöngur til og frá Eyjum að gera. Vissulega eru þær einhverjar, þær eru ekki alveg horfnar, en samt eru þær svo lamandi fyrir samfélagið að það eru næg rök að stöðva þetta með lögum.

Ég minni samt menn á að hér er bara verið að fresta, það er ekki verið að útkljá deiluna endanlega. Kannski er því eðlilegra að gera það með þessum hætti en var gert í fyrri dæmum sem við höfum fyrir framan okkur og þekkjum. Þarna er farið í vægari aðgerð, eins væga og hægt er að fara í, en samt komið í veg fyrir tjón á þeim miklu hagsmunum sem hér eru undir.