143. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2014.

frestun verkfallsaðgerða á Herjólfi VE.

536. mál
[00:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki man ég til þess að sett hafi verið lög sérstaklega á yfirvinnubann, en vinnustöðvun er vinnustöðvun þótt hún sé yfirvinnubann. Það getur varðað við alveg sömu almannahagsmunina að stöðva slíkt yfirvinnubann og almenna vinnustöðvun eða algjöra vinnustöðvun. Það skiptir ekki höfuðmáli. Hér skiptir bara höfuðmáli hvort almannahagsmunir séu slíkir að þeir réttlæti þetta inngrip með þeim hætti sem hér er gert .

Ég met það svo í þessu dæmi. Ég minni menn á þær umræður sem hafa verið, bæði áður, 2010, sem er út af fyrir sig mjög sambærilegt dæmi þar sem bara var gripið fyrr inn í ferlið, og líka um annað sem hefur gerst. Við höfum takmarkað atvinnufrelsi manna með lögum og vísað til almannahagsmuna, jafnvel bara á starfsemi sem okkur er ekki þóknanleg. Við höfum ekki hikað við það.

Hér erum við þó með heilt samfélag undir, 5 þús. manns, sem býr við mjög skerta þjónustu vegna vinnustöðvunar örfárra aðila sem skiptir auðvitað líka máli í hagsmunamatinu, þ.e. hvaða hagsmuna verkfallið á að gæta. Þegar svona mikill halli er á því er gífurlega mikilvægt að það sé ekki á fárra manna höndum, sem er ekki almennt verkfall, að setja slíkt samfélag gjörsamlega á hliðina.