144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður þarf nú ekki að lesa heima, hann kann þetta mál utan að. Á þessari umræðu virðist sem ekki séu allir algjörlega heima í grundvallaratriðum málsins. Þegar ríki sækir um aðild að Evrópusambandinu leggur það fram umsókn. Síðan leggur það fram bréf þar sem gerð er grein fyrir aðstæðum og umhverfi umsóknarinnar alveg eins og við gerðum. Nú man ég ekki hvort það var í 60 eða 70 liðum. Upphaflegu drögin voru 84, ég man það þó. Þar er ítarlega farið yfir allt það sem viðkomandi ríki ætlar sér að ná fram og setur sem markmið í hverju og einu og sömuleiðis gerð grein fyrir ýmsum menningarlegum forsendum slíkrar umsóknar.

Minni hv. þingmanns er býsna gott. Hann rifjar það upp að 2009 hafi verið hér flokkar sem vildu sækja um, þar á meðal Framsóknarflokkurinn. Til þess að hressa aðeins upp á minni hans og annarra viðstaddra er líka rétt að rifja það upp að hér var lögð fram tillaga í júní 2009 af þingmönnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Framsögumaðurinn var, ef ég man rétt, hæstv. forsætisráðherra, sem nú er, og tillagan var um að hefja undirbúning að aðildarumsókn. Með öðrum orðum: Allir flokkar vildu stefna í Evrópusambandið með einhverjum hætti, líka Framsóknarflokkurinn, bara svo að það rifjist hér upp.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann einnar spurningar. Hann nefnir skýrslu Hagfræðistofnunar. Það er hárrétt sem hann sagði, þar kom það fram, hjá Stefáni Má Stefánssyni prófessor, að hægt væri að sækja um undanþágur og hann lýsti því alveg með hvaða hætti það yrði. Það yrði erfitt. Ég taldi alltaf að við þyrftum ekki á því að halda, vildi fara aðra leið, en hann sagði það. Það var þá, þegar skýrslan kom fram, sem allt fór upp í loft og kallaðir voru saman neyðarfundir til að ryðja inn tillögu um slit. Telur hv. þingmaður að svo kunni að vera að þegar (Forseti hringir.) skýrslan lá á borðinu, og var með allt öðrum hætti en hæstv. utanríkisráðherra taldi að hún yrði, hafi það verið (Forseti hringir.) ástæðan fyrir þessu bráðræði að kasta fram tillögunni sem gerði síðan allt vitlaust í samfélaginu?