144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að menn geri dálítið mikið úr þeirri „mystik“ sem felst í því hvað það er að vera í Evrópusambandinu. Staðreyndin er auðvitað sú að það liggur nokkuð ljóst fyrir hvað felst í aðild að Evrópusambandinu. Evrópusambandið er ófeimið við að útskýra það fyrir þeim sem sækja um að verið er að sækja um aðild að Evrópusambandinu eins og það er. Regluverk Evrópusambandsins liggur mjög skýrt fyrir þannig að það er ekkert óskaplega flókið í þessu.

Það er ekki þannig að í sambandi við aðildarviðræður að Evrópusambandinu sé um að ræða samninga tveggja jafn settra aðila. Annar aðilinn er að sækja um aðild að hinum. Ég held því að menn megi ekki gera of mikið úr þeirri — hvað eigum við að segja — hulu sem hvíli yfir því hvað felst í aðild að Evrópusambandinu.

Varðandi hins vegar svar hv. þingmanns við spurningu minni áðan er út af fyrir sig gott að fá það fram að hv. þingmaður telur að við eigum að halda áfram viðræðum. Ég mundi kannski spyrja ítarlegar: Telur hv. þingmaður að þær viðræður eigi þá að fara fram á sömu forsendum og lagt var upp með á síðasta kjörtímabili eða telur hv. þingmaður að aðstæður eða forsendur hafi með einhverjum hætti breyst? Telur hv. þingmaður til dæmis að þau viðmið sem sett voru fram í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar á síðasta kjörtímabili séu þess eðlis að við þau eigi að halda fast í viðræðum, verði þeim haldið áfram?