144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:03]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög svo efnismikla og málefnalega ræðu en í ræðunni var í raun rætt um Evrópusambandið sjálft og hugsanlega kosti aðildar. Það held ég að sé mjög gagnleg umræða og rökræða sem við þurfum að eiga. Fjallað var meðal annars um kosti þess að vera með sameiginlegan gjaldmiðil. Grískri þjóð var á sínum tíma, fyrir 10 árum síðan þegar Grikkir gengu í Evrópska myntbandalagið, væntanlega tjáð að það yrði uppskrift að mikilli sælu að fá að vera með hinn sameiginlega gjaldmiðil og að þeirra gjaldmiðill, sem hafði glímt við verðbólgu fram að því, mundi ekki trufla efnahagslíf þeirra eftir það. Reyndin hefur verið önnur. Núna er atvinnuleysi meðal ungs fólks í Grikklandi orðið ríflega 50% og almennt atvinnuleysi nálægt 30%. Í rauninni hefur verið viðvarandi samdráttarskeið frá því árið 2010, mjög alvarlegt og djúpt, og fátæktin og hungursneyðin orðin mjög sláandi. Ég veit að það nístir alla góða þingmenn að sjá þetta gerast.

Vandinn er sá að þegar maður hefur ekki lengur sjálfstæðan gjaldmiðil er engin önnur leið í boði en svokölluð innri gengisfelling, þ.e. að lækka laun allra með þvingunaraðgerðum, með uppsögnum hjá hinu opinbera, með sölu innviða. Það er verið að selja hafnirnar til Kínverja. Það er vegna þess að ekki er hægt að lækka gjaldmiðilinn.

Varðandi skýrslu KPMG vil ég spyrja hv. þingmann hvort ekki hafi vaknað hjá henni einhverjar efasemdir eftir að hún sá þetta dynja yfir. Það hafði vissulega ekki dunið yfir þegar umsóknin var lögð fram árið 2009 en núna höfum við sé hvernig þetta myntbandalag hefur reynst þeim aðildarríkjum sem eru í því og lenda í vandræðum. Það eru bara harðindi og harðindi og meiri harðindi.