144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, mér finnst það ekki eðlilegra vegna þess að ég vil halda því fram að það sé um eitthvað að semja. Annars hefðu ekki allar þessar þjóðir farið í samningaviðræður. Það getur vel verið að hv. þingmaður viti hvernig samningurinn lítur út. Þá væri ágætt hjá honum að teikna það upp þannig að hann geti komið hér þegar við klárum loks samninginn og sagt: Ég sagði ykkur það. Ef hann veit nákvæmlega hvernig sjávarútvegskaflinn verður þá er hann að mínu viti skyggn.

Ég vil fá að sjá samninginn og ég læt ekkert segja mér að það sé ekki um neitt að semja. Hvað hafa þá allar þessar þjóðir verið að gera, eyða peningum og tíma í vitleysu? Er þá verið að segja að við getum tekið síðasta samning — var það ekki Króatía eða hvaða þjóð var það sem gekk síðast inn? Getum við þá bara tekið þann samning og notað hann ef allir samningarnir eru alveg eins? Ég er ekki sammála því.

Ég hefði ekkert endilega viljað leggja fram þingsályktunartillögu um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram, en við erum í raun tilneydd vegna þess að ríkisstjórnin gerir ítrekaðar tilraunir til að slíta aðildarviðræðunum. Ég sætti mig við að þær séu lagðar á ís, umsóknin sé ofan í skúffu og hægt að taka hana upp síðar. En hér er skemmdarstarfsemi í gangi, það er verið að reyna að slíta viðræðunum og það sætti ég mig ekki við.

Ég skil ekki af hverju stjórnarflokkarnir sáu ekki að það var besta lausnin í þessu máli að leyfa umsókninni einfaldlega að liggja. Það er enginn að ætlast til þess að þessir tveir flokkar fari fram af miklum krafti í þessu máli, það voru allir sáttir við þetta. En nei, þá fóru menn að reyna að slíta viðræðunum en tókst það reyndar ekki af því að þetta var svo ótrúlega klúðurslegt. Við ræddum það á sínum tíma, ég ætla ekki að fara meira út í þá sálma. Þessi vinnubrögð eru öll eitthvað svo óskiljanleg. Engri þjóð hefur tekist að þvælast jafn mikið í þessu máli og okkur.