144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[19:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég og Sjálfstæðisflokkurinn erum sammála um þá afstöðu að vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Okkur greinir þó örugglega oft á um ástæðurnar fyrir því af hverju við ættum ekki að ganga þar inn, samt ekki alltaf og ég verð að viðurkenna að stundum hefur það hreinlega komið mér á óvart hversu sammála ég er einstökum rökum sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og meira að segja hv. þingmenn Framsóknarflokksins, hafa fært fram hvað varðar afstöðu til inngöngu. Það er hins vegar hvernig við eigum að leiða þetta mál til lykta, sérstaklega eins og það horfir við okkur í dag, og hvernig umræðan hefur verið að þróast, einkum undanfarin tvö ár, þar greinir mig og hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans greinilega mjög á. Líkt og ég lýsti í ræðu minni um þessa tillögu til þingsályktunar tel ég réttu leiðina núna vera að bera málið undir þjóðina, þ.e. hvort við eigum að halda aðildarviðræðum áfram eða ekki, og taka síðan púlsinn þegar við vitum þá niðurstöðu og haga málum okkar hér innan húss í samræmi við vilja þjóðarinnar. Því miður sýnist mér, miðað við umræðuna eins og hún hefur verið í dag, að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans séu ekki tilbúnir til að fara þá leið.