144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla bara að játa það að ég veit ekki hvort það var nokkuð í Noregi sem þurfti að færa aftur til fyrri vegar. En það er alla vega ljóst að í tvígang hafnaði Noregur samningi og Noregur stendur ágætlega eftir sem áður, þar virðist allt vera í lukkunnar vel standi.

Aðlögunarhæfni hefur síst verið einkenni á Bjarti í Sumarhúsum. Vera má að það sé andstaðan við aðlögun á Íslandi, en staðreyndin er náttúrlega sú að við erum í stanslausri aðlögun að Evrópusambandinu í gegnum aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Það virðist vera sem svo að andstæðingar aðildar vilji að sú aðlögun fari fram þannig að við höfum sem minnst um hana að segja. Það er mjög sérstök afstaða að mínu mati.

Svo finnst mér líka sérstakt að oft hefur komið fram í umræðunni að það sé þannig að þegar við verðum komin með samning í hendurnar þá geti Alþingi bara ákveðið það að við göngum í Evrópusambandið og sé ekkert að spyrja þjóðina. Það er náttúrlega firra. Það er lagt upp með og skýrt kveðið á um að samningur verði ekki samþykktur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Og fyrir utan það vil ég benda á að Ísland getur ekki gengið í Evrópusambandið nema að undangengnum stjórnarskrárbreytingum sem þurfa að fara í gegnum tvær atkvæðagreiðslur og kosningar á milli hér í þinginu. Miðað við það hversu illa hefur gengið að breyta stjórnarskrá á Íslandi þá getur fólk alveg andað rólega. Það verður ekki vaðið yfir neinn á skítugum skónum í þessu máli.