144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég furða mig svolítið líka á þessu tali um aðlögun, sérstaklega með hliðsjón af því að þjóðir hafa greinilega hafið ferlið og lokið ferlinu og gert það sem til stóð að gera hér og þrátt fyrir það staðið vissulega utan Evrópusambandsins. Það er því ekki þannig að ekki sé hægt að standa utan Evrópusambandsins þegar búið er að klára samningaviðræður.

Ég hef svolítið verið að reyna að grafast fyrir um það hvað er á bak við þessa aðlögunarorðræðu. Annað sem kom upp í ræðum hv. þm. Frosta Sigurjónssonar við ágætt tilefni á sínum tíma eru IPA-styrkirnir. Þeim var hætt af hálfu Evrópusambandsins eftir að það var orðið kýrskýrt að umræðuna ætti að setja á ís. Þarna eru ýmis verkefni sem mér er svolítið óljóst nákvæmlega hvers eðlis hafi verið þótt í meginatriðum hafi þetta verið verkefni sem voru ýmist til þess að undirbúa þjóðir efnahagslega eða snertu innviði til þess að ganga inn í Evrópusambandið. En svo rak ég augun í það að þegar Evrópusambandið hætti að veita IPA-styrkina þá brugðust íslensk stjórnvöld og merkilegt nokk, hæstv. utanríkisráðherra Íslands illa við og kvartaði undan því að ætti ekki að ljúka þeim verkefnum sem þá voru hafin. Þannig að ég stend eftir með eitt stórt spurningarmerki um hvað í ósköpunum þetta aðlögunarferli eigi að vera. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti bent á eitthvað sem menn með réttu mundu kalla aðlögun í umsóknarferlinu sjálfu.