144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:49]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir falleg orð í minn garð og ég veit að við erum sammála um þann þáttinn sem snýr að lýðræðinu og beinu lýðræði og mikilvægi þess.

Instrument for Pre-accession Assistance skil ég sem aðstoð í aðlögunarferli. Þannig hygg ég að það sé hugsað, að veita ríkjum aðstoð við að laga stofnanakerfi sitt og lög og regluverk að Evrópusambandinu. Þetta hefur verið að gerast á ýmsum sviðum, að gera okkur prúðbúin fyrir inngönguna í Evrópusambandið. Ég gæti farið út í það að telja það upp, ég geri það ekki á nokkrum sekúndum en við getum tekið umræðu um það í hverju sú aðlögun var fólgin. Þannig eru þessir styrkir hugsaðir og þeir voru taldir í milljörðum.

Hvað með það? Jú, það er greinarmunur á því annars vegar að ganga til viðræðna — við samband sem við erum að velta fyrir okkur hvort við eigum að ganga til fylgilags við eða gerast aðili að — og meta hvað komi út úr þeim viðræðum og hinu að undirgangast að breyta sínu kerfi áður en inngangan verður að veruleika. Það er mikill munur á því tvennu.