145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að leiðrétta misskilning sem kemur oft upp þegar ákveðin tillaga er rædd sem er sú að ráðherrar sitji ekki jafnframt sem þingmenn. Þessu er oft ruglað saman við annað fyrirbæri sem er þegar ráðherrar eru ekki kjörnir fulltrúar yfir höfuð. Þetta kemur oft upp í umræðum í kringum samþykkta stefnu Pírata um samskipti ráðherra og Alþingis þar sem kemur fram að Píratar skuli ekki eiga aðild að ríkisstjórn þar sem ráðherra sitji jafnframt sem þingmenn. Sú gagnrýni hefur komið fram í samtölum, jafnvel við aðra þingmenn, og vissulega í opinberri umræðu að menn viti þá ekkert hverjir verði ráðherrar.

Mér þykir mikilvægt að hafa það alveg á hreinu að tillagan felur ekki í sér að þingmenn megi ekki verða ráðherrar, þeir mega bara ekki vera ráðherrar og þingmenn á sama tíma. Þannig að ef þingmaður ætlaði að vera ráðherra þyrfti hann að segja af sér þingmennsku og fá inn varamann í staðinn. Um það snýst hugmyndin. Hugmyndin snýst ekki um að fjarlægja allt lýðræðislegt umboð frá ríkisstjórninni.

Að því sögðu er fínt að fólk ræði þetta og jafnvel hugmyndir sem sumum finnst ágætar sem ganga enn þá lengra í aðskilnaði framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins, hugmyndir sem ég tel mjög mikilvægt að við ræðum og með það að markmiði að gera breytingar, vegna þess að samkrull löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins á Íslandi er ekki nógu gott. Þótt það sé engin galdralausn á öllum þeim vandamálum að ráðherrar þurfi að segja af sér þingmennsku meðan þeir eru ráðherrar væri það vissulega skref í rétta átt og mundi væntanlega, trúi ég og yfirþyrmandi meiri hluti Pírata, breyta í það minnsta svokallaðri dýnamík, eða þeirri menningu, sem ríkir í samskiptum milli þingflokks og ríkisstjórnar. Ég tel alla umræðu í þá veru mjög holla og mikilvæga og nauðsynlega til þess að við náum að bæta lýðræðið hér á landi.