145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

langtímastefna fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum.

76. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndarálit utanríkismálanefndar um tillögu til nefndar um greiningu á möguleikum þess að móta sameiginlega langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Unni Brá Konráðsdóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Ingu Dóru Markussen, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins, Vilborgu Ásu Guðjónsdóttur, alþjóðaritara Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, Högna S. Kristjánsson, Bergþór Magnússon og Ragnheiði Harðardóttur frá utanríkisráðuneyti, Sigurberg Björnsson frá innanríkisráðuneyti og Sigurgeir Þorgeirsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að vinna ásamt landsstjórnum Færeyja og Grænlands greiningu með það að markmiði að kanna möguleika þess að móta sameiginlega langtímastefnu á sviði samgangna og innviða á Vestur-Norðurlöndum til að svæðið sem heild standi betur að vígi í vaxandi alþjóðlegri samkeppni á norðurslóðum.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hún er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2015 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Runavík í Færeyjum 12. ágúst 2015. Þar segir einnig að fyrir vestnorrænu löndin sé gagnkvæmur ávinningur af því að vinna saman að málefnum norðurslóða. Löndin geti styrkt samkeppnishæfni sína og aukið hagsæld á svæðinu með því að vinna saman. Einnig kemur þar fram að vestnorrænu löndin séu í lykilstöðu til að hafa áhrif á málefni svæðisins enda er markmiðið að íbúar norðurslóða hafi sem mest áhrif þar á.

Líkt og fram kemur í tillögugreininni er henni ætlað að tryggja að vestnorrænu löndin standi betur að vígi í vaxandi alþjóðlegri samkeppni á norðurslóðum. Sameiginleg stefna í samgöngum á svæðinu og tilheyrandi samgöngubætur hafa þó einnig jákvæð áhrif á samstarf landanna og skila sér í aukinni hagkvæmni. Þannig hafa t.d. bættar samgöngur milli Færeyja og Íslands þegar orðið til þess að bæta samstarf landanna, m.a. á sviði heilbrigðismála þar sem Færeyingar nýta í auknum mæli heilbrigðisþjónustu hér á Íslandi. Landspítalinn hefur fengið sértekjur vegna þessa og ávinningur Færeyinga er einnig mikill enda styttra að sækja læknisþjónustu til Íslands en til Danmerkur og þar af leiðandi hagkvæmara.

Í greinargerð tillögunnar kemur fram að gagnkvæmur ávinningur sé af því fyrir vestnorrænu löndin að vinna saman að norðurslóðamálum og áréttar nefndin að mikilvægi norðurslóða hefur aukist mjög og mun halda áfram að aukast á komandi árum. Brýnt er að Ísland, Grænland og Færeyjar verði í stöðu leiðandi þjóða í norðurslóðamálum þegar hin svokallaða norðurleið opnast enda liggja þar mikil tækifæri samfara aukinni skipaumferð og má nú bæta við sömuleiðis mögulegar hættur. Vestnorrænu löndin eiga þar ríkra hagsmuna að gæta og staða þeirra styrkist með sameiginlegri langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði á svæðinu.

Utanríkismálanefnd er samhljóma um að leggja til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Elín Hirst var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Aðrir fulltrúar í nefndinni skrifa undir nefndarálitið og það eru auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Hanna Birna Kristjánsdóttir, Karl Garðarsson, Vilhjálmur Bjarnason, Frosti Sigurjónsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Valgerður Bjarnadóttir.