145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

langtímastefnu fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum.

76. mál
[17:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögumanni ræðu hans áðan og vil fagna þessari þingsályktunartillögu. Ég held að mjög mikilvægt sé að fara í greiningu á möguleikum þess að móta sameiginlega langtímastefnu, fyrir samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum. Ég fagna því sérstaklega að verið sé að huga að langtímastefnu, ekki bara fyrir okkur Íslendinga heldur er nefnt hér sérstaklega aukið samstarf við vini okkar í Færeyjum og á Grænlandi. Af því að ég er nú formaður samgöngunefndar þá held ég að það sé líka mikilvægt þegar við reynum að styrkja þá innviði sem lagt er til að séu styrktir, að við horfum til landsins í heild sinni. Við höfum verið að ræða um möguleika á umskipunarhöfn á norðausturhluta landsins. Ég held að gríðarlega mikil tækifæri séu fólgin í því þegar ísinn á norðurskautinu hopar, og hann hopar enn meira, að hægt verði að sigla þar eins og vonir standa til. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir Íslendinga. Ég lagði fram tillögu þess efnis á sínum tíma að þessi möguleiki yrði skoðaður og benti á að prófessor í Harward-háskóla hefði sagt að svona umskipunarhöfn hefði kannski jafn mikil þjóðhagsleg áhrif og Hoover-stíflan hafði á sínum tíma í Bandaríkjunum. Menn geta rétt ímyndað sér hvað mikið er í húfi. Bandaríkjamenn horfa mikið til eyjunnar St. Pauli í Kyrrahafi sem umskipunarhöfn þeirra og svo yrði önnur á Íslandi.

Mér finnst ég greina það líka í þingsályktunartillögunni að verið sé að tala um innviði í samgöngum í víðara samhengi en eingöngu í gegnum Keflavíkurflugvöll. Við sjáum þörfina á því núna að dreifa ferðamönnum víðar um landið. Náttúruverndarsamtök hafa verið að mæla mjög sterkt með því að það sé gert til að vernda náttúruna. Ferðaþjónustan hefur kallað eftir því, jafnvel ferðaþjónustuaðilar á Suðurlandi sem hafa áhyggjur af of miklum fjölda ferðamanna á tilteknum ferðamannastöðum. Náttúruperlur eru hringinn í kringum landið og ég held að það sé þjóðhagslega hagkvæmt ef okkur mundi takast að byggja innviði eða gera þá þannig úr garði að ferðamenn mundu dreifast betur um landið.

Ég ætla ekki að hafa þetta langt, ég vil bara fagna þessari þingsályktunartillögu. Við í Norðurlandaráði lögðum okkur fram um aukið samstarf við Vestur-Norðurlöndin eins og þau eru kölluð. Þegar ég gegndi embætti forseta Norðurlandaráðs beitti ég mér fyrir því að sambandið yrði styrkt og að Vestnorræna ráðinu yrði lyft og að samskipti við Norðurlandaráð yrðu aukin. Það varð allt að veruleika, þannig að ég fagna þessu og vonast til að þingsályktunartillagan verði að veruleika.