145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

stefna um nýfjárfestingar.

372. mál
[19:51]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um hvað hann væri glaður yfir því hvað fólk væri sammála um þessa tillögu. Það er þannig að allir flokkar sem sæti eiga í atvinnuveganefnd eru á því nefndaráliti sem hv. þingmaður las upp áðan nema sú sem hér stendur. Ég skal játa að ég þurfti að lesa þingsályktunartillöguna mjög oft því að ég þurfti að átta mig á hvað í henni stæði því að hún er mjög almenn og mjög óljós og svona hingað og þangað og fjallar mikið um alþjóðageirann. En eftir því sem ég las hana oftar sá ég að alþjóðageirinn og þau fyrirtæki sem við þekkjum sem nefnd eru í tillögunni, eins og Marel, Actavis, Plain Vanilla og fleiri, áttu að fá brauðmolana af gnægtarborðinu. Það sem liggur fyrir er að nýfjárfestingin í orkufrekari iðnaði átti að nýtast alþjóðageiranum svo vel. Það er það sem ég les út úr tillögunni. Það vantar skýrar áherslur og markmið um hvað eigi nákvæmlega að gera.

Nefndarálitið hjá meiri hlutanum skýrir það auðvitað svolítið og leggur meiri áherslu á orkuna og segir að hana þurfi, svo hitt megi koma fram.

Mig langar að hamra á því að þetta er ástæðan fyrir því að ég er ekki með á álitinu (Forseti hringir.) og mér þykir miður að við ræðum ekki í þessum efnum, þ.e. nýfjárfestingum, um aðra hluti en þessa gamaldags stóriðju eða, fyrirgefið, orkufrekan iðnað.