149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[16:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér stórt og mikið mál sem hefur legið þungt á mörgum, en ekki er mögulegt að flýja að takast á við það. Við þekkjum undanfara málsins varðandi dóm EFTA-dómstólsins og síðan Hæstaréttar Íslands. Samkvæmt þeim dómum brýtur frystiskylda í bága við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum og við þurfum að bregðast við því.

Þessi skuldbinding var staðfest af Alþingi árið 2009 og matvælalöggjöfin var tekin upp nema að frystiskyldan þar var ekki afnumin. Nú stöndum við frammi fyrir því að dómar hafa fallið og það er ekkert annað hjá stjórnvöldum en að bregðast við því. Vissulega gætu áhrifin verið alvarleg gagnvart íslenskum landbúnaði og það er auðvitað það sem stjórnvöld og allir þeir sem vilja íslenskum landbúnaði vel hafa verið að glíma við og hvernig hægt er að bregðast við því.

Fram hefur komið í greiningum að það gæti haft mikil áhrif á tekjur bænda ef óheftur innflutningur verður og frystiskylda afnumin. Þetta gæti þýtt minnkaðar tekjur hjá bændum upp á 500–600 milljónir og jafnvel miklu meira. Þess vegna er mikilvægt, eins og hæstv. ráðherra hefur komið vel inn á, að vera með öflugar mótvægisaðgerðir. Það er þar sem við sem stjórnvöld þurfum að fylgja hart eftir til þess að styðja við íslenskan landbúnað og heilnæma landbúnaðarframleiðslu sem við erum svo stolt af hér á Íslandi. Og horfa til þess að okkar landbúnaður hefur mikla sérstöðu hvað varðar hreinleikann, aðbúnað og ekki mikla lyfjanotkun, eins og nefnt hefur verið.

Þess vegna er ekki boðlegt að vera í samkeppni við landbúnað nema á sömu forsendum, að við gerum sömu kröfur til landbúnaðarframleiðslu sem hugsanlega væri flutt inn og við gerum til íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Á þeim forsendum tel ég að við getum verið samkeppnisfær, að við tryggjum það í aðgerðaáætlun okkar að ekki verði gefinn neinn afsláttur af því hvers konar landbúnaðarvörur við myndum væntanlega flytja inn, að það standist allt það sem við gerum kröfur til varðandi okkar landbúnað og að við höfum þær varnir eins miklar og við getum í þeim efnum.

Ég bind miklar vonir við þá aðgerðaáætlun sem liggur fyrir að stjórnvöld ætla að gera og við þurfum að fylgja því stíft eftir. Varnirnar gegn kampýlóbakter eru öflugar og því þarf að rýna hvort aðrar varnir séu það líka. Það mætti einnig skoða fælingarmáttinn, hvort stjórnvaldssektir varðandi innflutning séu nægjanlega miklar ef menn fara ekki eftir því regluverki sem við setjum upp. Eins og það lítur út í dag geta sektir verið frá 25.000 upp í allt að 25 millj. kr. og eru til þess hugsaðar að innflutningsaðilar fari ekki að taka neina áhættu varðandi það að flytja inn kjöt sem ekki stenst þær kröfur sem við munum gera.

Við horfum líka til lýðheilsu og verndun búfjárstofna og heilnæmis og ekki síst til umhverfisþátta matvælaframleiðslu. Það skiptir auðvitað miklu máli, í samhengi hlutanna, varðandi loftslagsmál að vera með sem umhverfisvænstan landbúnað. Að neytendur neyti þeirrar framleiðslu sem næst er í þeirra umhverfi og að vörur séu ekki fluttar um langan veg eða þær framleiddar við einhverjar aðstæður sem við þekkjum ekki og myndum ekki sætta okkur við hér á landi. Við getum líka horft til þess að jafnvel er verið að greiða fólki, sem framleiðir vörurnar, langt undir þeim kjörum sem við teljum mannsæmandi. Allt þetta skiptir máli.

Okkar verkefni fram undan er að tryggja stöðu íslensks landbúnaðar, horfa til framleiðslu heilnæms íslensks landbúnaðar og að hann keppi á jafnræðisgrunni varðandi alla þá þætti sem hér hefur verið tæpt á. Við í atvinnuveganefnd fáum þetta mál inn til okkar til að glíma við og við munum gera hvað við getum til að tryggja enn frekar stöðu íslensks landbúnaðar hvað varðar þetta mál.

Ég veit að stjórnvöld hafa brugðist mjög hart við því að gera það með þeim vopnum og tækjum sem möguleg eru. Við munum halda áfram að skoða það í nefndinni hvort við getum styrkt það enn frekar. Ég veit og treysti því að þar munum við öll sameinast, fólk úr öðrum flokkum ásamt þeim sem eru í stjórnarflokkunum, að tryggja framleiðslu íslensks landbúnaðar og að hann sé samkeppnisfær á jafnréttisgrunni við innfluttar landbúnaðarafurðir sem innflutningur gæti aukist á í framhaldi af afgreiðslu frumvarps þessa.