149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[16:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Í umsögn Bændasamtaka Íslands segir:

„Bændasamtökin lögðu til með bréfi sem sent var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þann 23. febrúar 2018 að leitað yrði samninga við Evrópusambandið vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins frá 14. nóvember 2017, annars vegar um að óskað yrði undanþágu frá niðurstöðunni, en til vara að þriggja til fimm ára aðlögunartími fengist. Fram hefur komið að einhverjar viðræður hafi átt sér stað en erfiðlega hefur gengið að fá aðgang að ýmsum gögnum sem tengjast málinu, þar á meðal fundargerðir frá fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og utanríkismálastjóra ESB, Federicu Mogherini. Samtökin hafa efasemdir um að málið hafi verið sótt af einhverri alvöru gagnvart ESB í meintum viðræðum.“

Þetta er mjög athyglisvert sem kemur fram. Í fyrsta lagi að það skuli vera erfitt að fá upplýsingar um hvort það hafi farið fram einhverjar viðræður. Það er eitthvað sem skiptir verulegu máli í þessu öllu saman. Ég vil spyrja hv. þingmann, sem er jú formaður atvinnuveganefndar: Mun hún beita sér fyrir því í nefndinni að farið verði fram á þriggja til fimm ára aðlögunartíma, frest, til að innleiða þessa breytingu á frystiskyldunni eins og Bændasamtök Íslands hafa lagt áherslu á?