149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[17:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég verð að setja þetta í samhengi við það sem hv. þingmaður segir í greininni um að ekki eigi að gefast upp. Er þá þetta frumvarp ekki uppgjöf?

Í greininni, sem hv. þingmaður skrifaði í Bændablaðið, segir:

„Stjórnvöld verða að óska eftir lengra svigrúmi til innleiðingar, aðlögun og raunverulegar varnir taka tíma.“

Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni hvað þetta varðar.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort Framsóknarflokkurinn sem slíkur muni beita sér fyrir því að lengri frestur verði veittur í þessum efnum, t.d. í þrjú til fimm ár, eins og nefnt hefur verið hér. Ég get ekki lesið betur en að hv. þingmaður, sem flutti þessa ræðu hér áðan, hafi talað svolítið á skjön við það sem hún sagði í grein í Bændablaðinu; hún talaði um uppgjöfina, að gefast ekki upp. Síðan er komið frumvarp sem er uppgjöf sem hv. þingmaður ætlar greinilega að styðja.

Á móti kemur að það verður að fá það á hreint hvort Framsóknarflokkurinn ætlar yfir höfuð að styðja frumvarpið og hvort Framsóknarflokkurinn ætlar að beita sér fyrir því að veittur verði lengri frestur ef hv. þingmaður getur ekki hugsað sér að styðja þetta í óbreyttri mynd. Er breytingartillögu að vænta frá Framsóknarflokknum hvað þetta varðar?