149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir þetta andsvar. Ég er honum ekki sammála um að með frumvarpinu sé reynt að bæta þetta ástand. Það var það sem ég sagði áðan um hættuna við þetta ástand: Við þurfum að fá að grípa til einhverra ráðstafana sem duga. Og nei, við getum ekki beðið eftir einhverjum hundi, þess vegna áttum við að fóstra hann fyrir 20 mánuðum þannig að hann yrði klár 1. september nk. en ekki fara að hugsa um hann núna. Þess vegna áttum við líka að grípa til fleiri ráðstafana sem teknar eru upp í þessari ágætu greinargerð. Það bendir allt til þess að menn hafi allt í einu vaknað upp við vondan draum og sagt sem svo: Við erum að fara að setja í gang frumvarp sem tekur gildi 1. september nk., hvað getum við gert í einu dauðans ofboði til að reyna að laga þetta þannig að einhver svipur sé á? En það er bara enginn svipur á þessu, hv. þingmaður, því miður.

Mér finnst eiginlega skína í gegn í þessari greinargerð að þetta er unnið í dauðans ofboði. Það segir hér frá hringferð ráðherra sem var farin á síðasta hausti að hitta þá sem þetta hittir verst fyrir, bændur. Ég veit ekki hvort það átti að kalla það samráð eða eitthvað annað og veit ekki hvað kom svo sem út úr því nema bændur hafa örugglega komið gremju sinni á framfæri við ráðherrann, sem er svo sem ágætt.

En ég segi aftur: Ég fæ ekki séð, hv. þingmaður, að hér sé gripið í taumana nógu snemma. Það er talað um að árétta og gera eitthvað í framtíðinni og MAST á að fá einhverja peninga, en þetta er allt saman of lítið, of seint, sýnist mér.