149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[20:35]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir að sjálfsögðu óstjórnlega leitt að hafa valdið hv. þingmanni vonbrigðum. En stundum er gott að tala hreint út um hlutina. Heitir það ekki bara að tala íslensku? Að tala um þetta mál eins og raunverulega er verið að ræða það?

Þetta er hræðsluáróður. Það er talað um hættuna á smiti fjölónæmra baktería. Það er aldrei minnst á það einu orði í ræðum hér þegar þetta er nefnt að langmesta ógnin sem okkur stafar af þessu, og það er rétt að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur litið á þetta sem mikla heilsuvá, er okkar eigin sýklalyfjanotkun, okkar notkun í okkur sjálf, ekki inntaka okkar í gegnum kjöt.

Önnur mesta hættan er í gegnum ferðamenn. Ég hef ekki heyrt mikla umræðu um frystiskyldu á ferðamönnum. Það væri sennilega ekki mjög heppileg þróun, alla vega ekki fyrir ferðamennina.

Þetta er lýðskrum. Þetta er hræðsluáróður. Það kemur alltaf í ljós í umræðunni þegar öllu er á botninn hvolft að það er verið að kalla eftir tæknilegum viðskiptahindrunum á landbúnaðarafurðir. Það er kjarni máls.

Ég mundi miklu frekar vilja, í ábyrgri umræðu hér í þessum sal, að við tækjum upp umræðuna um stuðningskerfið okkar við landbúnað. Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að við styðjum vel við íslenskan landbúnað og íslenska landbúnaðarframleiðslu. Ég myndi sjálfur miklu fremur kjósa að við beittum þeim stuðningi miklu meira í beingreiðslur til bænda, með auknum sveigjanleika, auknu frelsi til þess að ráða sinni framleiðslu sjálfir, heldur en t.d. í gegnum tollverndina sem er stór hluti okkar stuðnings eða verndar við greinina í dag.

Ég held að það væri miklu betra, bæði fyrir bændur, fyrir landbúnaðinn og fyrir neytendur. Það er bara víst svo að neytendur hafa notið góðs af þróuninni sem var í grænmetinu, bæði hvað varðar verð en líka hvað varðar vöruúrval.