149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

dýrasjúkdómar o.fl.

766. mál
[21:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Háæruverðugi forseti. Í ljósi þess að hv. þingmenn, bæði úr stjórnarmeirihlutanum og stjórnarandstöðunni, hafa gert mikið úr viðbragðsáformum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem kynnt eru samhliða þessu frumvarpi þykir mér við hæfi að líta aðeins betur á athugasemdir Bændasamtakanna við þessi áform um viðbrögð og aðgerðir til að bregðast við afleiðingum þessa frumvarps. Ég mun reyndar ekki í þessari stuttu ræðu ná að fara yfir allar þær athugasemdir en ég mun stikla á stóru.

Það er t.d. bent á það af hálfu Bændasamtakanna að heimild ráðherra til að fela Matvælastofnun sýnatöku sé algerlega í lausu lofti. Óljóst sé með hvaða hætti eða hvort þetta muni ganga eftir. Og Bændasamtökin benda eðlilega á að réttara væri að tala um skyldur sem menn eigi að uppfylla í þessum efnum.

Það er líka bent á að það muni reynast erfitt að staðfesta að alifuglakjöt hafi ekki smitast af kampýlóbakter á eldistíma og að mikil óvissa sé um möguleika manna á að fylgja því eftir, sem er auðvitað mikið áhyggjuefni. Því að eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson benti á hér fyrr í dag, og það voru mjög sláandi upplýsingar, deyja 33.000 Evrópumenn eða svo úr kampýlóbaktersýkingum á hverju ári. Það jafngildir því að u.þ.b. 22 Íslendingar mundu látast af þessum ástæðum.

Hv. þm. Brynjar Níelsson bendir á þá leið til að bregðast við þessu að menn borði bara íslenskt kjöt og íslensk matvæli. Ég treysti hv. þm. Brynjari Níelssyni vel til þess. Ég reyni að sjálfsögðu að fylgja þeirri reglu og borða íslenskt kjöt, bæði eldað og hrátt, en mundi aldrei treysta mér til að borða erlend matvæli nema einstaklega vel elduð. Og hv. þm. Brynjar Níelsson bætti reyndar þeim ráðum við að ef menn hefðu áhyggjur af þessum erlenda mat væri bara hægt að mauksjóða hann og þar með komast hjá þessari hættu. En við komumst til að mynda ekki hjá annars konar smithættu fyrir búfjárstofna og við komumst sannarlega ekki hjá því að með þessu aukist mjög hætta á fjölónæmum sýklum.

Bændasamtökin benda á það í áliti sínu að áætlun ráðherrans sé verulega veik og tímaramminn óraunhæfur. „Verulega veik,“ segja Bændasamtökin um þau áform sem hæstv. ráðherra hefur kynnt sem viðbrögð við eigin frumvarpi.

Á öðrum stað er bent á að aðgerðirnar séu bitlausar. Þar er lýst efasemdum um að málið hafi verið sótt af fullum þunga. Ég held að það sé alveg ástæða til þess að hafa slíkar efasemdir. Menn segja: Það er fallinn dómur og þá verðum við að hlíta honum. En sá dómur var rangur, bendir Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, á. Þarf þá ekki hlíta röngum dómum? spyrja kannski einhverjir. Svarið við því er að þetta mál er af þeirri stærðargráðu — og það er brotið á Íslandi með þessari niðurstöðu að því marki — að það kallar á pólitískt inngrip, það kallar á diplómatískar og pólitískar aðgerðir sem þurfa að vera til þess fallnar að sýna Evrópusambandinu að okkur sé full alvara með kröfu um að fá undanþágur frá þessu og að gerðar verði lagfæringar sem augljóslega þarf á að halda. Því Íslendingar njóta t.d. ekki sömu réttinda hvað varðar það að verja okkar framleiðslu og Evrópusambandslöndin njóta.

Ef EES-samningurinn á að ganga út á jafnræði verður eftirfylgnin að vera í samræmi við það og við að treysta okkur til að gera kröfu til þess að sú sé raunin í stað þess að víkja, aftur og aftur, og ætla íslenskum landbúnaði að uppfylla strangari, erfiðari og dýrari skilyrði en þeim evrópska en um leið að njóta ekki verndar sem er sambærileg við þá sem evrópskur landbúnaður nýtur.