151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

samstæðureikningar sveitarfélaga.

[14:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Í október 2020 skilaði reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga áliti sem ber yfirskriftina Reikningsskil samstæðu Reykjarvíkurborgar og reikningsskil Félagsbústaða hf. Álit í máli nr. 1/2020. Á mannamáli er niðurstaðan sú að það stenst ekki lög að Reykjavíkurborg hafi reikninga Félagsbústaða hf. sem hluta af samstæðureikningum sínum við uppgjör. Til skýringar á þessu virðist hafa verið gefin út tilkynning á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 19. mars 2021 með yfirskriftinni: Varðandi álit reikningsskila- og upplýsinganefndar. Þar er farið yfir málið og væntanlega hefur ætlunin verið að skýra það með einhverjum hætti. Það tekst ekki betur til en svo að sveitarfélög virðast skilja það „hipsumhaps“ og ekkert sveitarfélag með ankannalegri hætti en Reykjavíkurborg.

Í bréfi frá samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Í tengslum við umrætt mál er rétt að árétta að hvorki ráðuneytið né reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga hefur tekið ákvörðun um að veita sveitarfélögum undanþágu við gerð samstæðureiknings eins og þeim ber að gera skv. 61. gr. sveitarstjórnarlaga.“

Enda yrði slík breyting væntanlega aldrei gerð nema með lagabreytingu.

Reykjavíkurborg og væntanlega aðrar sveitarstjórnir hafa skilið tilkynninguna frá 19. mars á mismunandi vegu og sumar hverjar í rauninni alls ekki, þó sérstaklega Reykjavíkurborg miðað við þann skilning sem kemur fram í nefndu áliti.

Ég spyr því hæstv. ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, í ljósi þess að ég tel að efni tilkynningarinnar (Forseti hringir.) stangist á við lög og að ársreikningar Reykjavíkurborgar sem ekki innihéldu samstæðureikning muni þar af leiðandi stangast á við lög, hvort hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) sjái fyrir sér að skýra þetta með betri hætti á heimasíðu ráðuneytisins eða hvort fyrirséð sé að leggja til lagabreytingar (Forseti hringir.) sem taka á þessu því að núverandi staða er óboðleg.