151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

skráning samskipta í Stjórnarráðinu.

[14:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég spurði um samskiptin við Høgna Hoydal, þar sem verið var að vísa í að elta eigi peningana. Mér fannst svarið ekki alveg nægilega skýrt um þau samskipti, hvaða ráðherra það var sem átti í þeim samskiptum. Eins og fram kom í óundirbúinni fyrirspurn áðan, við formann Samfylkingarinnar, Loga Einarsson, þá eigum við ekki að vera undir stjórn hagsmunaafla. Stjórnmálaflokkarnir eiga að ekki að vera með þá ásýnd. En þetta býr augljóslega til þá ásýnd, ef það eru pólitísk afskipti af svona sérhagsmunamálum milli landa, að mögulega sé verið að nýta pólitískan styrk eða afl til að hafa áhrif á utanríkismál. Ekki veit (Forseti hringir.) ég til þess að þetta hafi verið kynnt í utanríkismálanefnd, en þetta eru væntanlega mikilvæg utanríkismál sem ætti miðað við allt að kynna þar.