151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

skráning samskipta í Stjórnarráðinu.

[14:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður kvartar yfir því að svör mín séu óljós, en þau geta ekki verið skýrari. Í ljósi þess að ég sat ekki í ríkisstjórn 2017 þekki ég ekki hvaða samskipti áttu sér stað. Ég bendi á það sem fram hefur komið í fréttum um samskipti utanríkisráðherra Íslands við utanríkisráðherra Færeyja um fiskveiðistjórnarlöggjöfina, en þær fréttir getur hv. þingmaður líka nálgast.

Það sem kom hins vegar fram í máli mínu, og er líka algjörlega skýrt og hefur komið fram í fréttatilkynningum frá Stjórnarráðinu, er að rætt var um Hoyvíkursáttmálann við færeyska ráðamenn. Íslensk stjórnvöld lýstu þeirri skoðun sinni margoft opinberlega að þau teldu mikilvægt að halda í þann sáttmála og það var eftir að ég tók við sem forsætisráðherra. Þannig að ég held að þetta geti ekki verið öllu skýrara.

Hv. þingmaður spurði hér áðan hvar slík samtöl myndu fara fram. Hefðbundið er að utanríkisráðuneyti landanna ræði um slík samskipti (Forseti hringir.) en Høgni Hoydal gegndi á þessum tíma embætti sjávarútvegsráðherra, ef ég man það rétt. Hv. þingmaður verður að (Forseti hringir.) beina fyrirspurnum sínum um þessi mál til þeirra sem sátu í ríkisstjórn 2017.