151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2020 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn .

693. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2020 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, þ.e. fjármálaþjónusta.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gaut Sturluson frá utanríkisráðuneyti og Elísabetu Júlíusdóttur frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2020 frá 7. febrúar 2020 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn, um fjármálaþjónustu, frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/760 frá 29. apríl 2015 um evrópska langtímafjárfestingarsjóði og framselda reglugerð framkvæmdastjórnarinnar 2018/480 frá 4. desember 2017 um viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/760 að því er varðar tæknilega eftirlitsstaðla um fjármálaafleiðugerninga sem hafa þann eina tilgang að verja gegn áhættu, nægilegan líftíma evrópsku langtímafjárfestingasjóðanna, viðmiðanir fyrir mat á markaðnum fyrir hugsanlega kaupendur og virði eignanna sem á að losna við og tegundir og einkenni aðstöðunnar sem stendur almennum fjárfestum til boða.

Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir þetta álit rita hv. þingmenn í utanríkismálanefnd, Sigríður Á. Andersen, formaður og framsögumaður málsins, Ari Trausti Guðmundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Logi Einarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir.