151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[17:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi koma inn á umsögn sem barst til nefndarinnar og hv. þingmaður fór aðeins yfir, þ.e. frá nefnd um eftirlit með lögreglu. Eins og hv. þingmaður kom reyndar inn á í ræðu sinni eru hér athugasemdir varðandi afhendingu gagna frá lögregluembættum. Það er mikilvægt að nefnd um eftirlit með lögreglu, sem er að sjálfsögðu mikilvæg nefnd eins og hv. þingmaður kom inn á, geti fengið öll þau gögn sem hún þarf til að sinna störfum sínum. Það kemur fram í umsögninni að það gengur eitthvað brösulega í ákveðnum tilfellum að fá gögn og fá þau á réttum tíma. Þarna er nefnt að gagnabeiðni hafi legið fyrir í rúmlega ár þar til að nefndinni bárust gögn. Nefndin segir hér að hún hafi bent ráðuneytinu á þörf á að skoða hvort hægt væri að veita henni einhver úrræði til þess að tryggja að hún fái gögn og fái þau innan tilsetts tíma. Ef ég heyrði rétt þá sagði hv. þingmaður að nefndin hefði farið yfir þetta en ekki séu lagðar til neinar breytingar. Ef ég hef þetta rétt eftir hv. þingmanni spyr ég hvort hann geti skýrt það nánar út. Það er ákaflega mikilvægt að þessir hlutir séu í lagi og ég hefði talið eðlilegt að nefndin myndi skerpa á þessum mikilvæga þætti, ef hv. þingmaður gæti aðeins farið yfir það.