151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[17:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það hvílir skylda á ýmsum stofnunum á vegum ríkisins sem síðan draga lappirnar í því að framfylgja þeirri skyldu, þetta er alltaf viðfangsefni sem þarf að reyna að kljást við. Ég hefði kosið að menn myndu reyna að taka á þessu með einhverjum hætti því að það hefur sýnt sig að þarna virðist vera viðvarandi vandamál.

Mig langaði líka aðeins að koma inn á það hvort í störfum nefndarinnar hafi verið horft til norsks réttar og einnig dansks réttar hvað þessi mál varðar. Þegar kemur að ákvæðinu um erlenda lögreglumenn virðist í fljótu bragði, a.m.k. eftir því sem ég hef kynnt mér, að ekki sé sambærilegt ákvæði í dönsku lögunum frá 2019 hvað varðar lögregluvald erlendra lögreglumanna. Það væri fróðlegt að vita hvort nefndin hafi skoðað þetta. Það er jú oft gott að horfa til Norðurlandanna í þessum efnum þar sem reynslan er í flestum tilfellum meiri og lengri. Ef hv. þingmaður gæti aðeins komið inn á það sérstaklega, þetta ákvæði með erlenda lögreglumenn. Þetta er náttúrlega svolítið stórt og mikið ákvæði og breyting. Ég spyr hvort hv. þingmaður geti farið aðeins yfir það, hvort nefndin hafi rætt þetta sérstaklega, þ.e. framkvæmdina á Norðurlöndum og þá sérstaklega í Danmörku.