151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[17:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í 1. umr. um þetta mál nefndi ég að ég teldi mjög mikilvægt að vanda til verka. Þetta er stórt og mikið mál og ég hefði talið eðlilegra að farið hefði verið í heildarúttekt við gerð nýrra lögreglulaga og síðan í vandaða umræðu í framhaldinu. Við þekkjum það að hæstv. forsætisráðherra bað fyrrverandi sakborninga í svokölluðu Guðmundar- og Geirfinnsmáli, sem við þekkjum öll, og aðstandendur þeirra afsökunar á því ranglæti sem þeir máttu þola. Það stóra mál, þar sem réttarkerfið brást og þar sem margvíslegir annmarkar voru á málsmeðferð hins opinbera, snýr ekki síst að meðferð rannsóknar. Við sjáum því hversu mikilvægt það er að gefa sér góðan tíma í verkefni eins og þetta og fara í heildarúttekt á lögreglulögum.

Ég vil fyrst aðeins víkja að lögregluvaldi erlendra lögreglumanna. Í 4. gr. frumvarpsins segir:

„Við 9. gr. laganna bætist við ný málsgrein, svohljóðandi:

Erlendir lögreglumenn sem koma til starfa hér á landi skv. 1. mgr. 11. gr. a fara með lögregluvald.“

Í þessu nýja ákvæði, 11. gr. a, segir að ríkislögreglustjóri ákveði hvort erlendir lögreglumenn hér á landi skuli fara með lögregluvald.

Herra forseti. Ég tel að hér sé um mjög víðtæka heimild að ræða, hver tekur slíka ákvörðun. Ef við horfum t.d. á sambærilegt ákvæði í 20. gr. norsku lögreglulaganna þá segir þar að lögregluvald megi í undantekningartilfellum veita öðrum en taldir eru upp í lögunum. Þar er einnig sérstakt ákvæði, í a-lið 20. gr., um erlenda lögreglumenn. Þar er enn fremur áréttað að í undantekningartilfellum sé heimilt að veita þeim lögregluvald.

Það þarf að koma skýrt fram í þessum lögum, að mínum dómi, að um sé að ræða undantekningartilfelli og að dómsmálaráðherra stæði fyrir slíkri heimild. Slík heimild og rökstuðningur fyrir henni þarf að vera í samræmi við skilgreindar reglur, vera tilkynningarskyld og sæta reglubundnu eftirliti — þetta er það sem ég vildi koma inn á varðandi 20. gr. Ég tel mikilvægt að horfa til norsku laganna hvað þetta varðar. Þar er þetta mjög skýrt og Norðmenn leggja í vana sinn að vinna lagafrumvörp ákaflega vel, horfa til reynslunnar og leggja mikinn metnað í þessi efni.

Í 8. gr. frumvarpsins er fjallað um hlutverk eftirlitsnefndar og ég teldi rétt, herra forseti, að bæta við það eftirlitshlutverk, t.d. á þann veg að nefndin geri árlega rannsókn á framkvæmd lögreglustarfa, með viðtölum og greiningu á verklagi og aðferðafræði lögreglu í samanburði við þróun verklags erlendis, og dragi síðan saman stöðu og athugasemdir vegna framkvæmdar verkefna lögreglu á sviði almennrar löggæslu, forvarna og rannsókna.

Ég nefndi hér í upphafi hið svokallaða Guðmundar- og Geirfinnsmál og það er stutt síðan Hæstiréttur komst að niðurstöðu þar, við þekkjum það. Á grundvelli þess og sambærilegra erlendra mála er full ástæða til að fylgjast vel með og koma á framfæri við almenning skýrum athugasemdum og tillögum um úrbætur í störfum lögreglunnar, hvort sem er á sviði almennrar löggæslu, forvarna eða rannsókna. Sú nálgun felst í því að beita sambærilegri hugmyndafræði og hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, ef svo má segja eða taka það sem dæmi, þar sem markmiðið er, og rannsóknarnefndin leggur upp úr því, að koma auga á þá þætti sem betur mega fara og gera tillögu um úrbætur. Þetta er ekki gert hér á landi með markvissum hætti.

Gerð voru afdrifarík mistök í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og hafa verið gerð í sambærilegum málum. Þessu mistök hafa t.d. orðið vegna andvaraleysis. Með því að eftirlitsnefnd og úttektarnefnd á hennar vegum hefði aðkomu að því að hlusta á starfsmenn og greina hvað betur mætti fara væri hægt að bregðast við. Við gerum þetta t.d. þegar kemur að Schengen-samstarfinu. Þá kemur hér erlend eftirlitsnefnd til að taka út hvernig við stöndum að þeim skyldum sem okkur ber samkvæmt Schengen-samstarfinu. Þegar nefndin kom síðast saman var niðurstaða hennar sú að það væri margt sem þyrfti að laga og í raun var farið fram á verulegar endurbætur. Stjórnvöld brugðust við því og settu í það töluvert mikla fjármuni að geta brugðist við þeim athugasemdum.

Við þurfum að vera á verði og vera vel meðvituð um að hafa eftirlit með þeim atriðum sem margir innan lögreglunnar vita að þarf að laga en eru ekki markvisst og reglulega dregin fram þannig að stjórnvöld geti brugðist við. Það þarf að vera til farvegur fyrir slíka nefnd eða starfshóp til að taka út verklag, aðferðafræði og nálgun í störfum lögreglu svo að þjónustan verði betri og markvissari og við getum komið í veg fyrir áðurnefnd mál sem hafa valdið mörgum miklu hugarangri og sárindum eins og við þekkjum.

Tökum flugrekanda til samanburðar. Honum er falið að rannsaka eða yfirfara ef eitthvað fer úrskeiðis þótt ekki sé um refsimál að ræða. Markmiðið er sem sagt að finna einhverja litla þætti sem geta haft miklar afleiðingar fyrir þá sem hlut eiga að máli. Markmiðið er einnig að hlusta á gagnrýni starfsmanna og annarra sem gagnrýna kerfið. Í þeirri nálgun að taka á móti kvörtunum vegna starfa lögreglu hefur alveg gleymst að þeir sem starfa innan hennar hafi kannski sjálfir áhuga á því að gera betur og að betur sé gert við starfssvið þeirra. Þá vantar hins vegar vettvang til að koma þessu á framfæri. Þetta hef ég heyrt í spjalli mínu við þá sem starfa innan lögreglunnar.

Herra forseti. Ég ætla aðeins að víkja aftur að því sem ég kom stuttlega að áðan í andsvari og það er þetta með lögregluvald erlendra lögreglumanna. Í 1. umr. þessa máls fannst mér hæstv. dómsmálaráðherra skauta svolítið yfir og gera örlítið grín að því öllu þegar ég spurði hana út í þennan mikilvæga þátt frumvarpsins. Hún sagði einfaldlega að hingað kæmu ekki rútur fullar af bandarískum lögreglumönnum. Þetta mál er alvarlegra en svo að menn séu að grínast með eitthvað sem lýtur að því og allra síst æðsti yfirmaður lögreglunnar, þ.e. hæstv. dómsmálaráðherra. Eins og ég nefndi í andsvari hér áðan sé ég ekki sambærilegt ákvæði í dönsku lögunum frá 2019 hvað varðar lögregluvald erlendra lögreglumanna og þá má til samanburðar benda á að samkvæmt 14. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, um valdbeitingu, er handhöfum lögregluvalds heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna. Aldrei mega þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Til samanburðar er í dönsku lögunum ítarlega útlistað hvenær ákveðin gerð valdbeitingar er leyfileg, t.d. hvenær megi beita skotvopnum, kylfu o.s.frv. Á grundvelli þeirra laga og skýrra heimilda er nánar kveðið á um það í reglugerð sem danski dómsmálaráðherrann getur síðan sett.

Það er því umhugsunarefni hvort ekki þurfi að setja í lögin sambærilega skýr ákvæði um mat á þessu. Fróðlegt væri að fá svör við því hvort þetta hafi verið rætt í nefndinni. Ég sagði hér í upphafi, herra forseti, að mér þætti eðlilegra að fara í heildarúttekt á lögreglulögunum og umræðu um þau. Það er ýmislegt sem vantar í þetta frumvarp og mér finnst að meira hefði átt að horfa til norsku og dönsku laganna sem ég hef nefnt hér. Það er margt gott í þeim lögum og við eigum einmitt að horfa til þessara þjóða og reynslu þeirra í þeim efnum eins og við gerum í svo mörgu öðru.

Mér finnst margt vanta hvað þetta varðar, þ.e. samanburður að horfa til reynslu Norðurlandanna. Þá finnst mér þetta valdaframsal á lögregluvaldi vera óskýrt og það er án takmarkana ekki farsælt skref og þörf á að fara mjög varlega í þeim efnum. Það er engin ástæða til að viðhafa einhvern asa í vinnubrögðum í svo mikilvægu máli. Það getur bara orðið til hins verra. Það er nauðsynlegt að horfa til allra þeirra sjónarmiða sem málið varða því að þetta er að sjálfsögðu mjög mikilvægt mál og varðar alla borgara þessa lands. Að því sögðu, herra forseti, þá læt ég máli mínu lokið í bili um þetta mikilvæga mál.