151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

lögreglulög o.fl.

365. mál
[17:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara rétt aðeins að koma inn á þetta frumvarp um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði og lög um dómstóla og breytingu á lögreglulögum sem hefur þennan undirtitil: eftirlit með lögreglu, lögregluráð o.fl. Auðvitað er hér fyrst og fremst verið að bregðast við ábendingum, m.a. frá GRECO o.fl., og verið að skýra og skerpa á nokkrum þáttum í þessu máli sem ég tel fulla þörf á þó að auðvitað megi fara í gegnum lögin í heild sinni og skoða þau enn frekar. Samfélagið hefur falið lögreglunni það vald að framfylgja okkar ákvörðunum, þ.e. stjórnvalda, og halda uppi lögum og reglu í okkar samfélagi. Í því skyni höfum við veitt lögreglunni heimild til að beita valdi í tilteknum undantekningartilfellum og þegar aðstæður krefjast þess. Við vitum að öllu valdi fylgir mikil ábyrgð, bæði fyrir þann sem hefur það og beitir því. Allt vald krefst óháðs og öflugs aðhalds og temprunar og mikilvægi þess eykst eftir því sem völdin eru meiri.

Eftirlit með valdi verður að vera trúverðugt og það verður líka að vera raunverulegt. Það er því algjört lykilatriði að til staðar sé skilvirkt eftirlit með störfum lögreglunnar líkt og með öðrum valdastofnunum samfélagsins. Það er gríðarlega mikilvægt til þess að standa vörð um réttindi borgaranna og ég er eiginlega sannfærð um að það eykur enn frekar traust til lögreglunnar, sem sem betur fer og blessunarlega nýtur mikils trausts hér á landi.

Það má líka segja að þetta sé ekki síður mikilvægt fyrir lögregluþjónana sjálfa. Slíkt eftirlit getur nefnilega spilað lykilhlutverk í því að draga þá línu í sandinn hvers konar valdi lögreglu sé heimilt að beita og hvenær sé of langt gengið. Þannig getur slík nefnd sem eftirlitsnefndin er skipt miklu máli í að móta framkvæmd lögreglustarfsins og haft leiðbeinandi hlutverk fyrir lögregluþjóna. Þá verða borgararnir einnig að geta áttað sig á því hvaða valdi lögreglan má beita og hvert þeir eiga að leita ef efasemdir vakna um framkvæmd starfa lögreglu.

Þetta er kannski það sem við höfum oftast rætt þegar við höfum verið að fjalla um þessi mál, þ.e. eftirlitsheimildir með lögreglu. Í þau ár sem ég hef setið í allsherjar- og menntamálanefnd og fjallað um þessi tilteknu málefni hefur starf og hlutverk eftirlitsnefndar nokkrum sinnum borið á góma. Auðvitað er mjög mikilvægt að gott og mikið gegnsæi sé í því starfi og að allir geti gengið að því hverjar skyldur þeirra eru, eins og rakið er í nefndarálitinu, þ.e. skyldur ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjóra og þá samvinnu sem þarf til að svona nefnd geti starfað með eðlilegum hætti.

Virðulegur forseti. Ég er ánægð með þetta. Þó að breytingarnar séu ekki margar og ekki mjög miklar eru þær samt til bóta. Við þurfum að halda áfram á þessari braut og gera þessi lög enn betri.