Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurstöður barnaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[12:50]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir sína góðu framsögu. Það er hressandi og svolítið upplífgandi að blaða í gegnum niðurstöður barnaþings. Ég er nú farinn að hallast að því að helstu áherslumál okkar jafnaðarmanna fengju talsvert greiðara brautargengi ef það væri bara 15 ára aldursþak á kjörgengi við kosningar til Alþingis. (Gripið fram í: Hámark.) Svona aldurshámark.

Á meðan ríkisstjórn Íslands rembist við að herða útlendingalöggjöfina — hv. þingmaður hlær hér, þetta er allt ferlega fyndið — og á meðan stjórnvöld skipuleggja fjöldabrottvísun fólks í óboðlegar aðstæður þá kalla börn eftir móttöku fleira flóttafólks, meiri mannúð, minni fordómum. Og á meðan starfsfólk flýr af heilbrigðisstofnunum vegna fjársveltistefnu, sem er gagnrýnd á hverju einasta ári við afgreiðslu fjárlaga, þá kalla krakkarnir eftir betri starfsaðstæðum heilbrigðisstarfsfólks og samstöðu um að efla heilbrigðisþjónustuna. Og á meðan stjórnarmeirihlutinn heykist á því að fjármagna lög um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu, lög sem Alþingi er búið að samþykkja, þá vilja krakkarnir ganga enn þá lengra og kalla eftir ókeypis sálfræðiþjónustu fyrir alla. Þau kalla líka eftir betri kjörum hinna tekjulægstu, gjaldfrjálsum almenningssamgöngum, kalla eftir afnámi allrar gjaldtöku fyrir heilbrigðisþjónustu. Þetta er bara fyrirtaks sósíalismi, áhersla á hið sameiginlega, samtrygginguna, samneysluna, það sem við eigum saman.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram fjármálaáætlun sem við munum ræða í næstu viku. Það er nú áætlun sem snýst eiginlega um hið gagnstæða. Þar er leiðarstefið að draga mjög markvisst úr umfangi ríkisins og hins sameiginlega í hagkerfinu á næstu árum og halda fjárfestingum hins opinbera í lágmarki næstu árin. Sú stefna gengur þvert á niðurstöður barnaþings og þessa ákalls um að efla heilbrigðiskerfið og stofnanirnar sem við eigum saman. Ég held að ríkisstjórnin ætti nú bara að hlusta á þessa krakka. Það mætti t.d. byrja á því að taka upp, ja eða leggja fram nýja og endurskoðaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samræmi við þá róttæku loftslagsstefnu sem birtist í niðurstöðum barnaþings. Svo held ég að það færi líka vel á því að taka upp fjármálaáætlunina, að endurskoða hana á grundvelli ákalls barnaþings um að það skipti bara höfuðmáli að við hjálpum hvert öðru, stöndum saman; að samstaða, samvinna og það að hjálpast að eigi að vera leiðarstef við rekstur samfélags.